Lilja Ágústsdóttir ((Baldur Þorgilsson)
Vinstri hornamaður Vals og íslenska landsliðsins, Lilja Ágústsdóttir gekkst undir aðgerð á hné undir lok síðustu leiktíðar og gat ekki leikið með Val í úrslitaeinvíginu gegn Haukum um Íslandsmeistaratitilinn. Síðasti leikur Lilju á síðasta tímabili var úrslitaleikur liðsins í Evrópubikarnum sem vannst á Hlíðarenda. ,,Ég fór í aðgerð á liðþófa og gert er ráð fyrir að endurhæfingin gæti tekið þrjá til fjóra mánuði. Ég stefni á að geta byrjað að hlaupa um miðjan ágúst mánuð. Vonandi að ég geti síðan byrjað að spila í september," sagði Lilja Ágústsdóttir í samtali við Handkastið. Gert er ráð fyrir því að Olís-deild kvenna fari af stað í byrjun september. Það verður því að teljast ólíklegt að Lilja verði með í upphafsleikjum tímabilsins hjá Val. Töluverðar breytingar eru á liði Vals fyrir komandi tímabil. Anton Rúnarsson hefur tekið við liðinu af Ágústi Jóhannssyni og þá hefur Elín Rósa Magnúsdóttir yfirgefið liðið og haldið til Þýskalands í atvinnumennsku. Hildigunnur Einarsdóttir og Sigríður Hauksdóttir hafa lagt skóna á hilluna og Silja Muller er farin aftur heim til Færeyja.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.