Anton Rúnarsson ((Baldur Þorgilsson)
Anton Rúnarsson tók við kvennaliði Vals af Ágústi Þór Jóhannssyni sem hafði stýrt kvennaliði Vals frá árinu 2017 og náð stórbrotnum árangri með liðið en tímabilið áður en Ágúst tók við kvennaliði Vals var það langt frá því að komast í úrslitakeppni Íslandsmótsins. Ágúst skyldi hinsvegar við liðið sem Deildar,-Íslands - Evrópubikarmeistarar. Það verður því ærið verkefni fyrir Anton Rúnarsson að halda uppteknum hætti en um er að ræða fyrsta aðalþjálfarastarf Antons sem hefur verið aðstoðarþjálfari Óskars Bjarna Óskarssonar hjá Val síðustu tvö tímabil. Hann segir að það hafi aldrei komið annað til greina en að taka við liðinu þegar honum hafi boðist það. ,,Það var mikill heiður að fá tækifæri til að þjálfa kvennalið Vals. Þetta er frábær hópur af metnaðarfullum leikmönnum sem verður gaman að vinna með á hverjum degi," sagði Anton í samtali við Handkastið á dögunum. Hann segist lítast mjög vel á verkefnið sem framundan er. ,,Það verður mikið um að vera hjá okkur á tímabilinu þar sem við munum taka þátt í forkeppni Evrópudeildarinnar og mætum þar hollensku meisturunum frá síðasta tímabili. Við munum nýta tímann vel áður en Íslandsmótið hefst og fara í æfingaferð til Portúgal þar sem við munum æfa við góðar aðstæður og taka æfingaleik við sterkt lið Benfica," sagði Anton sem segist ekki sjá fyrir sér að gera miklar breytingar á leikstíl liðsins frá síðustu árum. ,,Ég er ekki að fara umturna liðinu enda ekki ástæða til þess að mínu mati. Hins vegar er það þannig að það koma alltaf einhverjar áherslubreytingar með nýjum þjálfara." Valsliðið hefur misst nokkra leikmenn frá síðasta tímabili og enginn nýr leikmaður hefur komið til félagsins. Það er langt síðan að enginn leikmaður hefur gengið í raðir kvennaliðs Vals þar sem forveri Antons var virkur á leikmannamarkaðnum. Var það meðvitun ákvörðun hjá þér eða hvað? ,,Við höfum verið að framlengja við leikmenn sem hafa spilað gríðarlega vel á síðustu árum með liðinu sem við bindum miklar vonir við áfram. Við erum einnig að fá inn leikmenn tilbaka úr meiðslum og eigum gríðarlega efnilegar stelpur í félaginu sem hafa nú þegar fengið smjörþefinn af þessu frá síðasta timabili og fleiri sem eru að koma upp í gegnum okkar starf í Val sem við horfum til á næstu árum," sagði Anton sem var að lokum spurður að því hver stærsta áskorun hans verði í þessu nýja starfi. ,,Það er erfitt að segja nákvæmlega til um það en það er alveg ljóst að þetta verður krefjandi en á sama tíma skemmtilegt verkefni að takast á við enda frábærir leikmenn sem hafa mikinn metnað og leggja hart að sér á hverjum degi til að ná árangri. Við erum með gott teymi í kringum liðið sem heldur vel utan um hlutina og spennandi tímabil framundan," sagði Anton Rúnarsson nýr þjálfari kvennaliðs Vals í samtali við Handkastið.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.