Mjög svekktur og illt í sálinni eftir að hafa slitið hásin
Dragomir Ovidiu)

Tandri Már Konráðsson (Dragomir Ovidiu)

Tandri Már Konráðsson fyrirliði Stjörnunnar varð fyrir því áfalli að slíta hásin í leik Stjörnunnar og Baia Mare í forkeppni Evrópudeildarinnar í Rúmeníu um helgina. Þetta staðfesti hann í samtali við Handkastið í morgun.

Tandri Már fór af velli eftir tæplega 10 mínútna leik á laugardaginn en Tandri Már sleit hásin er hann var að stjórna sóknarleik Stjörnunnar.

,,Er að bíða eftir að komast í aðgerð fyrst og fremst. Síðan tekur bara við endurhæfing sem að getur tekið sinn tíma. Ég hef í raun enga hugmynd hvað ég er að fara út í. Ég hef heyrt að það gæti tekið mig sex til níu mánuði," sagði Tandri Már í samtali við Handkastið.

,,Ég er náttúrulega bara mjög svekktur og illt í sálinni fyrst og fremst. Ég var búinn að leggja hart að mér í sumar til að vera klár í tímabilið. Svo erum við með mjög spennandi lið í ár og mikill uppgangur í félaginu. Það er mikið högg að geta ekki hjálpað liðinu inn á vellinum," sagði fyrirliði Stjörnunnar en Stjörnuliðið hefur keppni í Olís-deildinni annað kvöld þegar liðið tekur á móti Val í 1.umferð deildarinnar.

En verður þetta endalokin á ferli Tandra sem verður 36 ára á næsta ári?

,,Stefnan er sett á að koma til baka. Ég á mjög erfitt með að hætta á þessum forsendum. Ég samdi við Stjörnuna til tveggja ára í sumar og langar að klára þann samning. Á meðan líkaminn, fyrir utan hásinina er heill og ég hef eitthvað fram að færa og gleðin er til staðar þá langar mig að spila áfram," sagði Tandri að lokum en hann gerir ráð fyrir því að komast í aðgerð strax í þessari viku.

Síðari leikur Stjörnunnar gegn Baia Mare í forkeppni Evrópudeildarinnar fer fram í Heklu-höllinni næstkomandi laugardag klukkan 13:00.

Dragomir Ovidiu)
Tandri Már á hækjum eftir leikinn á laugardaginn

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top