Kári Kristján Kristjánsson - Aron Pálmarsson (Kristinn Steinn Traustason)
Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Handkastsins bendir allt til þess að Kári Kristján Kristjánsson verði orðinn leikmaður nýliða Þórs í Olís-deildinni áður en langt um líður. Handkastið greindi fyrst allra miðla frá því í síðustu viku að Kári Kristján ætti í viðræðum við Þór. Í kjölfarið staðfesti Kári Kristján orðróminn í samtali við Handkastið og gerði ráð fyrir að ákvörðun myndi liggja fyrir, fyrir síðustu helgi. Nú er hinsvegar kominn miðvikudagur og samkvæmt heimildum Handkastsins er leikmaðurinn og félagið á loka metrunum að klára alla enda samningsins. Kári Kristján sem er fertugur og verður 41 árs síðar á árinu mætti í ágúst í hlaðvarpið, Handkastið þar sem hann fór yfir tímalínu sumarsins í samningaviðræðum hans við uppeldisfélag sitt ÍBV. Á þeim tímapunkti var hann hræddur um að ferill sinn væri lokið en nú virðist allt benda til þess að hann taki síðasta dansinn með Þórsurum í Olís-deildinni. Þór tekur á móti Val í 3.umferð deildarinnar næstkomandi föstudagskvöld en Kári lék með Val á sínum tíma. Í 4.umferðinni fer síðan fram leikur ÍBV og Þórs í Vestmannaeyjum. Fyrstu leikir Kára með Þór gætu því verið gegn hans fyrrum félögum hér á landi en Kári hefur einnig leikið með Haukum hér á Íslandi.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.