Við erum því miður í miðju breytingaskeiði
KERSTIN JOENSSON / AFP)

Andrea Jacobsen (KERSTIN JOENSSON / AFP)

Íslenska kvennalandsliðið fékk skell í æfingaleik gegn Danmörku ytra á laugardaginn þegar danska liðið vann sextán marka sigur 39-23.

Í nýjasta þætti Handkastsins var rætt um íslenska kvennalandsliðið og stöðuna á liðinu um þessar mundir. Gestir þáttarins voru þeir Sigurjón Friðbjörn Björnsson og Gunnar Valur Arason sem hafa verið lengi í kvennaþjálfun hér á Íslandi og þekkja stöðuna betur en nokkur annar.

,,Ég held að pælingin sé hjá Arnari Péturssyni að við förum í leik gegn Danmörku sem er topp tvö lið í heiminum, tökum skellinn og þá sjá stelpurnar hvar þær standa og við hverju er að búast ef þær ætla sér að nálgast toppinn," sagði Sigurjón Friðbjörn en miklar breytingar eru á landsliðinu frá síðustu verkefnum og síðustu stórmótum.

Þar benti Sigurjón á að miðjublokkin hefur farið einu sinni og jafnvel tvisvar úr landsliðinu síðustu ár en þar nefndi hann að þær Steinunn Björnsdóttir, Sunna Jónsdóttir og Hildigunnur Einarsdóttir eru allar hættar með landsliðinu og þá er Berglind Þorsteinsdóttir í pásu frá handboltaiðkun.

,,Við erum því miður í miðju breytingarskeiði og Arnar Pétursson er ekkert að hoppa hæð sína yfir því að þurfa að standa í því enn eitt skiptið. Hann er að móta nýtt lið," sagði Sigurjón ennfremur.

Gunnar Valur tók undir orð félaga síns og bætti við: ,,Við sáum það líka í þessum leik að hraðinn í leiknum og hversu fljótar danska liðið er að skipta á milli varnar og sóknar og svo öfugt. Við erum eftir þar. Sóknarlega í þessum leik vorum við allt í lagi en varnarlega vorum við ekki nægilega góðar," sagði Gunnar Valur.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top