Býst við hörkuleik gegn hollensku meisturunum
Sævar Jónasson)

Anton Rúnarsson (Sævar Jónasson)

Valur mætir hollensku meisturunum í JuRo Unirek í seinni leik liðanna í 1.umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í N1-höllinni í dag klukkan 16:00. Sigurvegararnir úr einvíginu mæta Íslendingaliðinu Blomberg-Lippe í 2.umferð forkeppni Evrópudeildarinnar.

Valur er einu marki yfir í einvíginu eftir 31-30 sigur í Hollandi um síðustu helgi og standa því vel að vígi fyrir leikinn í dag.

Handkastið heyrði í Antoni Rúnarssyni í gær þar sem hann var nýbúinn á síðustu æfingu Vals fyrir leikinn í dag.

,,Við búumst við hörkuleik gegn hollensku meisturunum frá síðasta timabili. Við vorum í hörkuleik við þær um síðustu helgi í Hollandi þar sem við á endanum náðum að landa eins marks sigri eftir erfiða byrjun þar sem við lentum meðal annars 4-1 undir og vorum einu marki undir í hálfleik 15-16," sagði Anton sem sagði frábær karakter hjá liðinu hafi skilað því að liðið kom til baka við erfiðar aðstæður.

,,Við náðum að stilla okkur betur af í seinni hálfleik."

Anton gerir ráð fyrir hröðum og skemmtilegum leik í N1-höllinni í dag.

,,Þær keyra vel á þetta og eru með öflugar skyttur sem taka mikið til sín í leiknum. Það er mikið um innleysingar og klippingar í þeirra sóknarleik sem við munum þurfa glíma við. Þetta er spennandi verkefni og munum við leggja allt í sölurnar til þess að ná fram alvöru frammistöðu í þessum leik. Við höfum verið að vinna vel í okkar varnarleik síðustu daga ásamt sókninni sem mun vonandi skila sér í leiknum."

Anton hvetur alla áhugamenn um handbolta til að koma í N1-höllina í dag og styðja við bakið á Valsliðinu í Evrópukeppninni þar sem stuðningurinn skiptir gríðarlega miklu máli.

,,Hollenska liðið fékk góðan stuðning frá sínu fólki og viljum við hvetja alla til að mæta á leikinn og styðja okkur í þessari baráttu um að komast áfram í næstu umferð," sagði Anton Rúnarsson að lokum.

Áfram íslenskurhandbolti!

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top