Ásthildur Jóna var markahæst. (Sævar Jónasson)
Íslenska kvennalandsliðið skipað leikmönnum 20 ára og yngri vann grænlenska landsliðið í dag með sjö mörkum 30-23 en sömu lið áttust við á fimmtudagskvöldið þar sem grænlenska landsliðið hafði betur með tveimur mörkum. Allt annað var upp á teningnum í dag og sjö marka sigur staðreynd. Töluverðar breytingar voru á leikmannahópi Íslands í þessum leik frá síðasta leik en meðal annars voru markahæstu leikmenn Íslands úr síðasta leik þær Arna Karitas Eiríksdóttir og Guðrún Hekla Traustadóttir ekki með í dag. Ásthildur Jóna Þórhallsdóttir var markahæst í liði Íslands með sex mörk og Dagmar Guðrún Pálsdóttir og Bergrós Ásta Guðmundsdóttir skoruðu fimm mörk hvor. Eyjamærirnar, Ásdís Halla Hjarðar og Birna María Unnarsdóttir skoruðu þrjú mörk hvor og aðrar minna. Sif Hallgrímsdóttir var með níu varða bolta og Ágústa Tanja Jóhannsdóttir var með fimm varin skot. HSÍ hefur ekki enn ráðið þjálfara á U20 ára landslið kvenna en þau Halldór Stefán Haraldsson og Þórey Rósa Stefánsdóttir stýrðu liðinu með glæsibrag í þessum tveimur æfingaleikjum gegn grænlenska landsliðinu.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.