Hafdís Renötudóttir (Sævar Jónasson)
Hafdís Renötudóttir var frábær í marki Vals í öruggum sigri liðsins gegn Haukum í 8.umferð Olís-deildar kvenna í síðustu viku. Valur vann leikinn með sjö mörkum, 24-31 en það var ekki síst að þakka Hafdísi í markinu sem átti stórbrotin leik. ,,Hafdís var í miklum ham og hún varði ótrúlega vel í þessum leik og það er ekkert nýtt svosem,” sagði Hörður Magnússon meðal annars í Handboltahöllinni sem sýnd er öll mánudagskvöld í Sjónvarpi Símans. ,,Hafdís var nánast búin að klára þennan leik í byrjun seinni hálfleiks með þessum vörslum. Hún tekur línufæri, dauðafæri og breytir leikmyndinni. Leikurinn átti kannski ekki að fara í allan þennan mun ef það hefði verið eðlileg markvarsla hjá henni eða eðlileg nýting úr dauðafærum hjá Haukum,” sagði Ásbjörn Friðriksson sem var gestur í Handboltahöllinni. Hafdís varði hvorki fleiri né færri en 17 skot í leiknum og var með 41% markvörslu. Þá skoraði hún einnig eitt mark í leiknum. Stórleikur fer fram í Olís-deild kvenna í kvöld þegar Valur fær ÍR í heimsókn en þetta eru liðin í efstu tveimur sætum deildarinnar. Leikurinn hefst klukkan 19:30 í kvöld.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.