Stjarnan (Egill Bjarni Friðjónsson)
Stjarnan tók á móti ÍR í Hekluhöllinni í 10.umferð Olís deildar karla í kvöld. ÍR voru ennþá í leit að sínum fyrsta sigri í deildinni og gengi Stjörnunnar hafði heldur ekki verið gott undanfarið svo maður fann að það var mikið undir hjá báðum liðum í kvöld. Stjörnumenn byrjuðu leikinn betur og voru með frumkvæðið í fyrri hálfleik. Jökull Blöndal var virkilega sterkur fyrir ÍR í fyrri hálfleik og tryggði að staðan í hálfleik var einungis 16-14 Stjörunni í vil. Bjarni Fritzson hefur látið sína menn heyra það vel í hálfleik því ÍR-ingar komu virkilega sterkir til leiks og voru búnir að jafna leikinn eftir rúmar 10 mínútur. Mikið jafnræði var með liðunum framan af síðari hálfleik en Stjarnan virtist ætla að hafa þetta þegar þeir komust 2 mörkum yfir í 24-22 og voru með boltann. Þá tóku ÍR-ingar við sér og breyttu stöðunni í 25-27 þegar 2 mínútur voru til leiksloka og fyrsti sigurinn þeirra í vetur virtist ætla að detta í hús. Lokamínúturnar voru æsispennandi og fengu Stjörnumenn vítakast þegar leiktíminn rann út þegar Elvar Otri braut á Daníel Karl í hraðaupphlaupi. ÍR-ingar voru brjálaðir og vildu meina að einungis aukakast hefði átt að vera dæmt. Benedikt Marinó fór á punktinn fyrir Stjörnuna og tryggði þeim eitt stig. Lokatölur í leiknum urðu 27-27 og voru bæði lið hundfúl með að hafa farið einungis með 1 stig úr leiknum. Benedikt Marinó Herdísarson var markahæstur heimamanna með 7 mörk og hjá ÍR var Jökull Blöndal Björnsson markahæstur með 8 mörk. Hress styður umfjöllun Handkastsins um Þjóðaríþróttina - Í tilefni þess fá allir hlustendur og lesendur Handkastsins 2 fyrir 1 af öllum boozt á Hressbarnum út nóvember. Hress er staðsett á Dalshrauni 11 í Hafnarfirði. Verði ykkur að góðu.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.