Jón Ásgeir Eyjólfsson (Sævar Jónasson)
Línu- og varnarmaðurinn, Jón Ásgeir Eyjólfsson leikmaður Stjörnunnar leikur ekkert meira með liðinu í Olís-deildinni fyrir áramót. Þetta staðfesti Hrannar Guðmundsson þjálfari Stjörnunnar í samtali við Handkastið. Jón Ásgeir hefur ekkert leikið með Stjörnunni í síðustu tveimur leikjum og ljóst er að hann missir af næstu þremur leikjum liðsins fyrir áramót gegn ÍBV, HK og FH en liðið situr í 7.sæti deildarinnar með 10 stig, jafn mörg stig og Fram sem er í 8.sæti deildarinnar. Jón Ásgeir meiddist illa á hné á æfingu liðsins um miðjan nóvember mánuð og eftir myndatöku kom í ljós að hann verður frá næstu vikurnar. ,,Jákvæðu fréttirnar eru þær að krossbandið hélt,” sagði Hrannar í samtali við Handkastið. Stjarnan fær ÍBV í heimsókn í 13.umferð Olís-deildarinnar í kvöld klukkan 18:30. Þremur stigum munar á liðunum en ÍBV er í 6.sæti deildarinnar með 13 stig.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.