Endjis Kusners (Eyjólfur Garðarsson)
Í dag á Torfnesi á Ísafirði mættust Hörður og Hvíti Riddarinn í Grill 66 deild karla.
Athygli vakti að Hvíti Riddarinn mættu vestur með aðeins 9 leikmenn á skýrslu. Mikil meiðsli og annað hjá þeim.
Lítið var skorað í upphafi og tók það rúmar 6 mínútur að skora fyrsta markið. Eftir korters leik voru Riddararnir yfir 7-8. Þá tóku Harðverjar við sér og áttu flottan kafla og komust mest 3 mörkum yfir. Liðsmenn Hvíta Riddarans klóruðu í bakkann og minnkuðu muninn í 15-14 áður en var flautað til hálfleiks.
Í seinni hálfleik náðu Harðverjar eiginlega aldrei að slíta gestina almennilega frá sér. Eftir korter í seinni hálfleik var staðan 24-22. Riddararnir nörtuðu alltaf í hælina á heimamönnum en náðu aldrei að jafna.
Fór það svo að lokum að Harðverjar fóru með sigur úr býtum. 29-27 urðu lokatölur. Mikilvægur sigur hjá þeim og þeir halda áfram að safna stigum í sarpinn. Eru þeir núna komnir upp í 3. sæti og geta verið til alls líklegir í umspilinu.
Hjá Harðverjum voru 4 leikmenn með 6 mörk. Þeir Sergio, Guilherme, Pavel og Pétur Þór Jónsson. Stefán Freyr varði 13 skot.
Hjá Hvíta Riddaranum var Daniel Petrov með 7 mörk. Bergvin Snær var með 19 bolta varða.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.