Alexandra Líf Arnardóttir ((Eyjólfur Garðarsson)
Haukar rassskeltu liði KA/Þórs í 11.umferð Olís-deildar kvenna í dag er liðin mættust á Ásvöllum. Haukar unnu fimmtán marka sigur, 35-20 en fyrir leikinn voru Haukar tveimur stigum á eftir KA/Þór í deildinni. Þetta verður því að teljast ansi óvænt úrslit út frá stöðu liðanna í deildinni fyrir leikinn. Haukar gerðu sér lítið fyrir og skoruðu 24 mörk í fyrri hálfleik gegn tíu mörkum KA/Þórs. Landsliðskonan, Rakel Oddný Guðmundsdóttir var markahæst í liði Hauka með ellefu mörk í leiknum og Jóhanna Margrét Sigurðardóttir kom næst með níu mörk. Sara Odden kom til baka í liði Hauka eftir meiðsli og skoraði átta mörk. Susanne Pettersen og Tinna Valgerður Gísladóttir voru markahæstar í liði KA/Þórs með fimm mörk hvor. Bergrós Ásta Guðmundsdóttir skoraði fjögur mörk. Sara Sif Helgadóttir í marki Hauka varði 15 skot í markinu en hún ásamt Rakel Oddný eru nýkomnar heim af heimsmeistaramótinu.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.