Bjarni Ófeigur Valdimarsson (Egill Bjarni Friðjónsson)
Bjarni Ófeigur Valdimarsson leikmaður KA hefur verið besti ef ekki lang besti leikmaður Olís-deildarinnar á þessu tímabili. Hann er bæði markahæsti og stoðsendingarhæsti leikmaður deildarinnar eftir fjórtán umferðir. Bjarni átti hinsvegar sinn daprasta leik á tímabilinu í síðustu umferð er KA tapaði gegn Aftureldingu á heimavelli 32-38. Bjarni skoraði einungis eitt mark í leiknum úr níu skottilraunum og tapaði fjórum boltum samkvæmt tölfræði HB Statz. Rætt var um frammistöðu Bjarna Ófeigs í nýjasta þætti Handkastsins þar sem Ásgeir Jónsson og Kristinn Björgúlfsson voru gestir Stymma klippara. ,,Bjarni Ófeigur á virkilega dapran leik í fyrri hálfleik. Ég skil það vel að Andri hafi tekið hann útaf miðað við hvað hann var búinn að spila illa en á sama skapi hefði maður haldið að hann myndi setja hann eitthvað aftur inn í restina, þegar KA nær smá áhlaupi og minnkar muninn í fjögur mörk,” sagði Ásgeir Jónsson í þættinum. Bjarni Ófeigur tapaði þremur boltum á fyrstu 15 mínútum leiksins og skoraði sitt eina mark leiksins á 20. mínútu leiksins. Bjarni hóf seinni hálfleikinn á fjórum mislukkuðum skottilraunum þar sem Einar Baldvin í marki Aftureldingar varði þrjú skot frá honum. Í kjölfarið var hann tekinn af velli og kom ekkert meira við sögu í leiknum. KA leikur lokaleik sinn í Olís-deildinni fyrir áramót á mánudagskvöldið klukkan 19:00 en sex stigum munar á liðunum. KA hefur tapað tveimur leikjum í röð í deildinni gegn Aftureldingu og Haukum en liðið gerði slíkt hið sama í fyrri umferðinni en vann svo HK í Kórnum með fjórum mörkum 31-27. Hress styður umfjöllun Handkastsins um Þjóðaríþróttina - Í tilefni þess fá allir hlustendur og lesendur Handkastsins 15% afslátt af öllum boozt á Hressbarnum og 15% afslátt af öllum staðgreiddum kortum út desember. Hress er staðsett á Dalshrauni 11 í Hafnarfirði. Verði ykkur að góðu.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.