Arnar Freyr Arnarsson (Sævar Jónasson)
Línumaðurinn, Arnar Freyr Arnarsson leikmaður Melsungen í þýsku úrvalsdeildinni rennur út af samningi hjá félaginu í sumar og yfirgefur félagið. Þetta staðfesti hann í samtali við MBL. Arnar Freyr er á sínu sjötta tímabili hjá Melsungen en segist spenntur fyrir því að takast á við ný verkefni á nýjum stað. Hann segist vera mjög sáttur hjá Melsungen og það verði mikill söknuður að fara frá Melsungen. ,,Er ekki sagt að góðir tímar taki einhvern tímann enda. Næst er bara nýtt ævintýri fyrir okkur hjónin. Auðvitað er eitthvað farið af stað en ekkert orðið 100% klárt. Ég verð bara að bíða og síðan kemur í ljós hvert maður fer. Núna er einbeitingin á landsliðið og að ná einhverjum árangri á EM," sagði Arnar Freyr meðal annars í samtali við MBL. Hann segist vera opinn fyrir því að skoða eitthvað annað en í Þýskalandi og segist ekki vera að leitast eftir því að vera áfram þar. Arnar Freyr missti af síðasta HM vegna meiðsla en er í landsliðshópnum sem undirbýr sig nú fyrir Evrópumótið sem hefst 15. janúar en fyrsti leikur Íslands fer fram 16. janúar. Melsungen sem voru í toppbaráttu lengi vel á síðustu leiktíð eru í 8.sæti deildarinnar í EM pásunni. Liðið hefur verið í miklum meiðsla vandræðum á tímabilinu. Með Melsungen leikur einnig Reynir Þór Stefánsson.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.