Kolstad (Andreas Gora / dpa Picture-Alliance via AFP)
Norska félagið, Kolstad þar sem Íslendingarnir Sigvaldi Björn Guðjónsson, Benedikt Gunnar Óskarsson og Sigurjón Guðmundsson leika með hefur enn ekki náð samkomulagi um launalækkun við leikmenn sína og framkvæmdastjóri félagsins, Jostein Sivertsen segir að boltinn sé nú hjá leikmönnunum á meðan félagið heldur áfram að vinna að lausn fjárhagsvandræðum félagsins. Greint var frá því fyrir áramót að enn og aftur væri félagið komið í slæm fjárhagsvandræði og hafi kallað inn lykilmenn félagsins á fund og óskað eftir því að þeir tækju á sig launalækkun, þar á meðal var Sigvaldi Björn Guðjónsson. Næstum mánuði eftir að leikmennirnir voru beðnir um að samþykkja launalækkun hefur ekkert samkomulag náðst. Samkvæmt norska fjölmiðlinum Adressa hófust viðræðurnar á ný í janúar eftir að samningaviðræðum var hætt yfir jólin. Framkvæmdastjórinn Jostein Sivertsen viðurkennir að ferlið taki tíma. „Við erum í viðræðum við leikmennina og stjórnendurna og þetta er eitthvað sem mun taka tíma,“ segir hann. Stjórnendur félagsins lögðu fram kröfu um launalækkun í byrjun desember en að sögn Sivertsen er næsta skref nú hjá leikmönnunum. „Boltinn er núna hjá leikmönnunum. Við höfum kosið að gefa þeim smá tíma því þetta er krefjandi fyrir alla,“ sagði Sivertsen. Leikmenn Kolstad eru enn í fríi en búist er við að þeir hefji sameiginlegar æfingar á ný 12. janúar. Hins vegar eru nokkrir leikmenn fjarverandi á komandi tímabili vegna þátttöku í Evrópumótinu. Á sama tíma nálgast lokun félagaskiptagluggans sem lokar 15. febrúar. Félagið hefur neitað því að leikmenn liðsins séu til sölu en til að mynda var orðrómur um að Simen Lyse myndi yfirgefa félagið strax í janúar en hann gengur í raðir PSG næsta sumar. Sivertsen útilokar hinsvegar ekki að félagið muni skoða það ef góð tilboð koma í leikmenn liðsins fyrir lok félagaskiptagluggans. Handkastið greindi frá því á dögunum að Benedikt Gunnar Óskarsson leikmaður Kolstad gæti verið á förum frá félaginu næsta sumar. Bróðir hans, Arnór Snær Óskarsson gekk í raðir Vals frá Kolstad fyrir áramót.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.