Anton Rúnarsson - Sigurgeir Jónsson (Baldur Þorgilsson)
Kvennalið Vals mætir þýska toppliðinu, Blomberg-Lippe í fyrri leik liðanna í forkeppni Evrópudeildarinnar í Þýskalandi í dag klukkan 16:00. Með Blomberg Lippe leika þær Andrea Jacobsen, Elín Rósa Magnúsdóttir og Díana Dögg Magnúsdóttir. Handkastið hafði samband við Anton Rúnarsson þjálfara kvennaliðs Vals og spurði hann aðeins út í standið á Valsliðinu fyrir leikinn í dag og við hverju má búast. ,,Lilja Ágústsdóttir ferðaðist ekki með liðinu til Þýskalands og er á leiðinni í aðgerð á næstunni. Aðrar eru klárar í slaginn. Við búumst við hörkuleik enda frábærlega mannað lið sem við erum að fara mæta á þeirra heimavelli. Þær eru á toppnum í Bundesligunni og taplausar í deildinni. Þær spiluðu einnig til úrslita í Final 4 í Evrópudeildinni í fyrra,” sagði Anton en Valsliðið er á toppi Olís-deildarinnar og hafa leikið afar vel að undanförnu og unnu til að mynda Hauka nokkuð sannfærandi á miðvikudagskvöldið. ,,Við þurfum að eiga toppleik til að ná í góð úrslit. Það er alveg klárt mál. Við þurfum að spila góðan varnarleik í 60 mínútur og agaðan sóknarleik,” sagði Anton sem gerir ráð fyrir krefjandi verkefni allan leikinn. ,,Það verður krefjandi að spila við þær fyrir troðfullu húsi og það verður eflaust mikil læti í höllinni. Við munum leggja allt í sölurnar til að ná fram okkar besta leik og góðum úrslitum,” sagði Anton að lokum. Seinni leikur liðanna fer síðan fram í Valshöllinni næstkomandi sunnudag.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.