Grétar Áki Andersen (Sævar Jónasson)
Stórleikur umferðarinnar í Olís-deild kvenna fer fram í kvöld þegar toppliðin í deildinni mætast á Hlíðarenda. Valsstelpur sem eru á toppi deildarinnar fá spútniklið ÍR í heimsókn. Handkastið heyrði í Grétari Áka Andersen þjálfara ÍR og spurði hann aðeins út í leikinn sem framundan er í kvöld gegn toppliðinu. ,,Við erum búnar að spila vel seinustu leiki og bæta okkur jafnt og þètt yfir veturinn. Við erum búnar að vera vinna mikið í okkur og greina hvað við erum að gera vel og hvað við getum gert betur,” sagði Grétar Áki og bætti við að byrjunin á tímabilinu hafi verið frábær. ,,Stelpurnar eiga allan heiður að þessu þær eru að leggja inn gríðarlega mikla vinnu og sjá ágóðann af því núna. Við ætlum okkur að reyna að halda uppteknum hætti.” ÍR hefur einungis tapað tveimur leikjum til þessa á tímabilinu, gegn Val og Fram í fyrri umferðinni en fyrri leikur liðanna var aldrei sá leikur sem fólk var að vonast eftir en Valur hafði mikla yfirburði og vann 14 marka sigur, 38-24. ,,Við ætlum að reyna bæta hlutina sem við hefðum geta gert betur gegn Stjörnunni og halda áfram þessum hlutum sem við erum að gera vel. Valur er með frábært lið og góðan þjálfara þannig það er mikið sem við þurfum að undirbúa okkur fyrir. Þær eru með breitt vopnabúr og spila hörkuvörn sem önnur lið eru í vandræðum með að leysa hvort sem það er 3-2-1 vörnin þeirra eða 6-0. En okkur langar að halda hraðanum uppi og halda áfram með okkar aggressíva varnarleik og taka næsta skref.” Valur lék í Þýskalandi um helgina og tapaði þar nokkuð stórt gegn þýska toppliðinu, Blomberg-Lippe. ÍR er því að mæta Val í miðju Evrópuverkefni. ,,Ég held að það sé alltaf erfitt að meta það hvort það sé gott eða slæmt. Þær eru að ná öllum leikmönnum nánast aftur inn og eru komnar í góðan rythma í leikjum og eru að spila vel. Þetta verður erfiður leikur og en við ætlum okkur að sýna góða frammistöðu,” sagði Grétar Áki að lokum. Stórleiurinn hefst klukkan 19:30 í kvöld.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.