Víkingur (Emma Elísa Jónsdóttir)
Víkingur kærði í dag framkvæmd leiks Víkings og Vals 2 sem fram fór í Grill66-deild karla á sunnudaginn til dómstóls HSÍ. Valur 2 vann leikinn afar óvænt en um var að ræða fyrsta tap Víkings á tímabilinu. Valur 2 vann leikinn með tveimur mörkum 29-31 eftir að Víkingur hafi verið yfir í hálfleik 13-10. Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri HSÍ staðfesti í samtali við Handkastið að kæra hafi borist frá Víkingum miðjan dag í dag. Jú málið er nú frekar skondið og hægt er að sjá í myndskeiðinu hér að neðan. Á 54. mínútu leiksins fengu Valur 2 dæmda á sig brottvísun er Logi Finnsson leikmaður númer 7 hjá Val 2 gerðist brotlegur. Gherman Bodgan annar af dómurum leiksins sá brotið og gaf Loga réttilega tvær mínútur fyrir. Þær tvær mínútur voru þriðja brottvísun Loga í leiknum sem hefði því ekki átt að spila meira í leiknum. Það sem gerist hinsvegar er að grænlenski leikmaðurinn í liði Vals 2, Kim Holger Josafsen Nielsen gengur útaf vellinum en Logi Finnsson heldur leik áfram og tekur ekki út sína brottvísun heldur Grænlendingurinn. Víkingsmenn skyldu hvorki upp né niður en dómarar leiksins létu leikinn halda áfram. Gerði Logi sér lítið fyrir og skoraði í næstu sókn Vals 2 og skoraði síðan tvö mörk á loka mínútum leiksins sem gulltryggði Val 2 sigurinn í leiknum. Yfir þessu eru Víkingar skiljanlega afar ósáttir og lagði félagið fram kæru vegna framkvæmd leiksins en það er nokkuð ljóst að dómarar leiksins gerðu í þessu tilviki dýrmæt mistök sem reyndust Víkingum dýr því Logi var næst markahæsti leikmaður Vals 2 með sjö mörk í leiknum og lykilmaður bæði í varnar- og sóknarleik liðsins. Myndskeiðið af atvikinu má sjá hér að neðan. En afhverju kærði Víkingur framkvæmd leiksins?

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.