Andrea Jacobsen (KERSTIN JOENSSON / AFP)
Íslenska kvennalandsliðið ferðaðist til Dortmund frá Stuttgart í dag og mættu á hótelið í hádeginu. Framundan er æfing hjá liðinu seinni partinn í dag áður en milliriðilinn hefst á morgun er liðið mætir Svartfjallalandi í fyrsta leik liðsins í milliriðlinum. Andrea Jacobsen hefur ekkert leikið með liðinu á mótinu en hún varð fyrir meiðslum á ökkla tæpum tveimur vikum fyrir mót. Arnar Pétursson landsliðsþjálfari Íslands er vongóður um að Andrea geti leikið með liðinu í millriðlinum en Handkastið heyrði í Arnari fyrr í dag. ,,Staðan á liðinu er nokkuð góð. Það eru allir leikmenninir að koma nokkuð vel útúr riðlakeppninni og heilir heilsu. Staðan á Andreu lítur vel út og vonandi er það allt að smella hjá henni. Við reyndum aðeins á Andreu á æfingu á laugardaginn og það kom ágætlega út en við ákváðum að gefa þessu aðeins lengri tíma. Við erum á leiðinni á æfingu á eftir þar við ætlum að láta reyna aftur á hana,” sagði Arnar í samtali við Handkastið. Hann segir það vera mikilvægt fyrir liðið að fá Andreu inn sem fyrst. ,,Ég er mjög ánægður með þær stelpur sem hafa komið inn fyrir Andreu, þetta eru ungar og reynslu litlir leikmenn sem hafa gert virkilega vel. Andrea er samt sem áður lykilmaður og reynslu mikill leikmaður. Hún hjálpar okkur ekki bara sóknarlega og í 6-0 vörninni heldur er hún okkar center í 5-1 vörninni og hefur mestu reynsluna þar og þekkinguna. Þannig Andrea hjálpar okkur mikið á öllum sviðum leiksins,” sagði Arnar sem ítrekaði að það kæmi vonandi í ljós seinni partinn í dag hvort Andrea yrði leikfær fyrir leikinn gegn Svartfjallalandi á morgun. Leikur Íslands og Svartfjallalands hefst klukkan 17:00 á morgun.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.