Brynjar Narfi Arndal FH (Eyjólfur Garðarsson)
Samkvæmt heimildum Handkastsins hefur þýska úrvalsdeildarfélagið, Gummersbach áhuga á að klófesta einn efnilegsta leikmann landsins, Brynjar Narfa Arndal leikmann FH. Guðjón Valur Sigurðsson er þjálfari Gummersbach en hann hefur verið duglegur að fá til sín Íslendinga síðustu ár. Með liðinu í dag leika þeir Elliði Snær Viðarsson og Teitur Örn Einarsson en Hákon Daði Styrmisson og Arnór Snær Óskarsson léku einnig með Gummersbach undir stjórn Guðjóns Vals. Brynjar Narfi Arndal er fæddur árið 2010 og þykir eitt mesta efni í Evrópu. Hann hefur að margra mati fengið óvænt hlutverk með liði FH í Olís-deildinni í vetur á kostnað leikmanns á borð við Bjarka Jóhannssonar sem FH fékk til sín frá Álaborg í sumar. Narfi lék á dögunum í æfingamóti með 2008 landsliði Íslands þrátt fyrir að vera fæddur 2010. Það er sjaldséð sjón að strax í 18 ára landsliðum Íslands skuli vera kallður leikmaður upp fyrir sig. Skoraði Narfi meðal annars tíu mörk í úrslitaleiknum í gærkvöldi sem tapaðist gegn Þjóðverjum. Gummersbach er ekki eina liðið í Evrópu sem hefur áhuga á þessum unga og efnilega leikmanni FH en samkvæmt heimildum Handkastsins er nafn Narfa á borði Guðjóns Vals um möguleika á að semja við leikmanninn til framtíðar. Narfi varð í september yngsti leikmaðurinn í sögunni til að skora mark í leik í efstu deild karla á Íslandsmótinu. Í febrúar varð hann sá lang yngsti til að leika í efstu deild.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.