Einar Þorsteinn Ólafsson (Kristinn Steinn Traustason)
Athygli vakti í lokaumferð þýsku úrvalsdeildarinnar á þessu ári að Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði þrjú mörk fyrir Hamburg í fimm marka tapi liðsins gegn Gummersbach 32-27. Það er nú ekki frásögufærandi nema fyrir þær sakir að Einar Þorsteinn hafði einungis skorað fimm mörk á tímabilinu og aldrei skorað fleiri en eitt mark í leik. Í fyrstu sex leikjum Hamburg á tímabilinu skoraði hann ekki mark og hans fyrsta mark fyrir Hamburg í þýsku úrvalsdeildinni skoraði hann gegn Magdeburg 5. október. Í síðustu sex leikjum hefur hann síðan skorað sjö mörk þar af þrjú í leiknum gegn Gummersbach. Þar lék hann mest megnis á línunni hjá Hamburg er liðið spilaði með sjö leikmenn í sókn. Nú er spurning hvort Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari íslenska landsliðsins hafi horft á leikinn og velti fyrir sér þeim möguleika að nota Einar Þorstein á línunni á Evrópumótinu í janúar en íslenska landsliðið hefur lítið spilað með sjö leikmenn í sókn undir stjórn Snorra Steins. Íslenska landsliðið kemur saman til æfinga fyrir Evrópumótið 2.janúar. Fyrsti leikur Íslands á EM verður föstudaginn 16.janúar gegn Póllandi í Kristianstad.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.