
Kvennalið ÍR. (Sævar Jónasson)
Eins og Handkastið greindi frá á dögunum sneri Ingunn María Brynjarsdóttir til baka í mark ÍR í tapi liðsins gegn KA/Þór í 12.umferð Olís-deildar kvenna. Um var að ræða fyrsta leik Ingunnar á tímabilinu en hún var í námi erlendis fyrir áramót. Ingunn María er á sínu öðru ári í Breiðholtinu en hún gekk til liðs við félagið fyrir síðustu leiktíð eftir að hafa spilað með Fram í Olís-deildinni þrjú tímabil. Ingunn er hinsvegar ekki eini markmaðurinn sem er að snúa til baka í lið ÍR því Hildur Öder sem staðið hefur í marki ÍR síðustu tímabil er einnig byrjuð að æfa aftur með liðinu en hún gekk með barn nýverið og er hægt og bítandi að koma meira inn í hlutina hjá ÍR. Þetta staðfesti Grétar Áki Andersen þjálfari ÍR í samtali við Handkastið. Næsti leikur ÍR í Olís-deild kvenna verður sunnudaginn 25. janúar þegar liðið fer í heimsókn til Selfoss í 14.umferð Olís-deildar kvenna.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.