Rúnar Kárason (Kristinn Steinn Traustason)
Einn besti leikmaður Olís-deildar karla undanfarin ár, hægri skyttan Rúnar Kárason leikmaður Íslands- og bikarmeistara Fram hefur framlengt samning sinn við félagið. ,,Það þarf vart að kynna Rúnar Kárason fyrir Frömurum eða öðrum handboltaáhugamönnum. Nú hefur hann verið ráðinn í tvö ný og mikilvægt hlutverk innan félagsins – sem rekstrarstjóri handknattleiksdeildar og yfirþjálfari yngri flokka. Rúnar skrifað einnig undir nýjan leikmannasamning og mun því áfram vera lykilmaður í sterku liði meistaraflokks karla á komandi tímabili, samhliða nýjum ábyrgðarhlutverkum innan félagsins." segir í tilkynningu frá Fram þess efnis. „Það er virkilega ánægjulegt að fá Rúnar á fullu inn í starfið og við bindum miklar vonir við að geta nýtt okkur þekkingu hans og reynslu á enn fleiri vígstöðvum,” segir Þorgrímur Smári Ólafsson, framkvæmdastjóri Fram. Sjálfur er Rúnar spenntur fyrir verkefninu: „Ég er virkilega spenntur fyrir þessu hlutverki og vona að ég geti staðið undir væntingum og haldið áfram með það góða starf sem hér hefur verið unnið." Rúnar hefur leikið með Fram síðustu tvö tímabil eftir veru sína í Vestmannaeyjum þar á undan. Rúnar lék í tólf ár í atvinnumennsku, mest megnis í Þýskalandi auk þess að hafa leikið í Danmörku.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.