Alexander Pettersson leggur skóna á hilluna
(Baldur Þorgilsson)

Alexander Petterson (Baldur Þorgilsson)

Fyrrum atvinnu- og landsliðsmaðurinn, Alexander Pettersson hefur leikið sinn síðasta handboltaleik á ferlinum, 44 ára að aldri. Þetta kemur fram á Facebook-síðunni Valur handbolti.

Þar er Alexander þakkað fyrir framlag sitt til félagsins á lokahófi Vals sem fram fór í júní. Alexander sem er fæddur og uppalinn í Lettlandi kom ungur að árum til Íslands og lék fyrstu árin með Gróttu/KR áður en hann hélt út í atvinnumennsku.

Alexander lék í 19 ár í atvinnumennsku í Þýskalandi með sex liðum. Árið 2003 fór hann til Dusseldorf og lék þar tvö tímabil. Þangað lá leiðin til Grosswallstadt, síðan til Flensburg. Næsti áfangastaður var Fuche Berlín áður en hann fór til Rhein Neckar Löwen þar sem hann lék í níu ár. Hann lauk síðan veru sinni í Þýskalandi hjá Flensburg og Melsungen sumarið 2022.

Hann tók sér eins árs hlé frá handbolta áður en hann samdi mjög óvænt við Val sumarið 2023 og varð Evrópubikarmeistari með félaginu. Hann náði þó ekki að landa Íslandsmeistaratitlinum með Val.

Alexander gat ekki leikið með Val í úrslitakeppninni á síðustu leiktíð vegna síendurtekna höfuðhögga sem hann fékk á tímabilinu.

Alexander lék 186 landsleiki á árunum 2004–2021 og skoraði 725 mörk. Hann var kjörinn Íþróttamaður ársins á Íslandi 2010. Alexander var hluti af íslenska landsliðinu sem vann til bronsverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking 2008 auk þess sem hann vann til bronsverðlauna á EM í Austurríki 2010 með íslenska landsliðinu.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top