Rea Barnabas fyrir loka heimaleik sinn með Pick Szeged. (Pick Szeged)
Stjarnan hefur samið við ungverska leikstjórnandann, Rea Barnabas. Rea kemur til Stjörnunnar frá stórliði Pick Szeged í Ungverjalandi. Rea gerir eins árs samning við Stjörnuna. Þetta staðfesti Hrannar Guðmundsson þjálfari Stjörnunnar í samtali við Handkastið. Rea sem er 23 ára, er uppalinn í Pick Szeged og hefur spilað með félaginu allan sinn ferill. Hann hefur verið í leikmannahópi félagsins síðustu þrjú ár en auk þess lék hann með varaliði félagsins í ungversku 2.deildinni í fyrra og árið áður. Fyrir síðasta heimleik Pick Szeged á tímabilinu, er liðið lék gegn Veszprém í úrslitaeinvíginu um ungverska meistaratitilinn sem Veszprém vann að lokum var Rea kvaddur af félaginu þar sem samningur hans rann út eftir tímabilið. „Það er mjög erfitt að kveðja eftir 16 ár. Ég lærði allt hér, ég ólst upp hér, ég lít til baka á hverja stund sem ég hef eytt hér með gleði. Ég vona að ég muni snúa aftur til Szeged einn daginn sem betri og reyndari leikmaður. Ég minnist fjögurra meistaratitla í unglingaliðunum með gleði og ég gat lært mikið með aðalliðinu. Fyrir utan meiðsli, var allt frábært," sagði Rea við heimasíðu Pick Szeged. Stjarnan endaði í 7.sæti Olís-deildarinnar á síðustu leiktíð og féll út í 8-liða úrslitum gegn Val. Liðið fór alla leið í úrslit Powerade-bikarsins en tapaði þar gegn Fram. Stjarnan tilkynnti það fyrr í sumar að liðið taki þátt í Evrópudeildinni á komandi tímabili. Rea er þriðji leikmaðurinn sem gengur í raðir Stjörnunnar í sumar. Áður hafði örvhenti hornamaðurinn, Gauti Gunnarsson komið til Stjörnunnar frá ÍBV og línumaðurinn, Loftur Ásmundsson gekk í raðir félagsins frá Val 2.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.