Bessi skoraði sex mörk í kvöld. (Eyjólfur Garðarsson)
Íslenska landsliðið skipað leikmönnum 19 ára og yngri þurfti að sætta sig við eins marks tap gegn Spánverjum í úrslitaleik Opna Evrópumótsins í Gautaborg í kvöld. Leikurinn endaði með 31-30 sigri Spánverja. Garðar Ingi Sindrason leikmaður FH var lang markahæstur Íslendinga í leiknum með tíu mörk. Garðar Ingi var valinn efnilegasti leikmaður Olís-deildarinnar á síðustu leiktíð. Bessi Teitsson leikmaður Gróttu kom næstur með sex mörk. Spánverjarnir voru með undirtökin allan leikinn og leiddi í hálfleik 17-13. Var íslenska liðið í eltingarleik við þá spánsku allan tímann. Íslensku strákarnir skoruðu tvö síðustu mörk leiksins og minnkuðu muninn í eitt mark. Nær komst liðið ekki og tap í úrslitaleiknum niðurstaðan. Framundan hjá liðinu er heimsmeistaramótið sem hefst í Kaíró í Egyptalandi eftir réttan mánuð. Segja má að þetta hafi verið frábær undirbúningur fyrir HM en marga lykilmenn vantar í þann hóp sem Heimir Ríkharðsson þjálfari liðsins valdi fyrst til þátttöku. Mörk Íslands: Garðar Ingi Sindrason 10, Bessi Teitsson 5, Marel Baldvinsson 3, Elís Þór Aðalsteinsson 3, Dagur Árni Heimisson 2, Ágúst Guðmundsson 2, Jens Bragi Bergþórsson 2, Andri Erlingsson 1, Dagur Leó Fannarsson 1 og Egill Jónsson 1.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.