Helmingur liðanna mætir með nýjan þjálfara í brúnni

Ágúst Þór Jóhannsson

Sex lið af tólf í Olís-deild karla mæta til leiks á næsta tímabili með nýjan þjálfara.

FH, Stjarnan, HK, ÍR, Selfoss og Íslands- og bikarmeistarar Fram mæta með sama þjálfarann til leiks á komandi tímabili þrátt fyrir að bæði ÍR og Fram hafi ráðið inn nýja aðstoðarþjálfara og óvíst er hvort Einar Andri Einarsson verði áfram aðstoðarþjálfari Sigursteins Arndal hjá FH.

Akureyrarliðin, KA og Þór hafa ráðið nýja þjálfara fyrir næsta tímabil. Norðmaðurinn, Daniel Birkelund var ráðinn þjálfari Þórs og tekur við liðinu af Halldóri Erni Tryggvasyni. Þá var Andri Snær Stefánsson ráðinn þjálfari KA en hann var aðstoðarþjálfari Halldórs Stefáns Haraldssonar sem var látinn taka pokann sinn eftir síðasta tímabil.

Gunnar Magnússon tók við liði Hauka á nýjan leik eftir langa veru í Mosfellsbænum en Stefán Árnason aðstoðarmaður hans hjá Aftureldingu tók við keflinu í Mosfellsbænum og Daníel Berg Grétarsson verður hans aðstoðarmaður.

Erlingur Richardsson hefur tekið við ÍBV á nýjan leik eftir tveggja ára pásu en Magnús Stefánsson hafði stýrt liði ÍBV í þessi tvö ár. Magnús tók við kvennaliði ÍBV í sumar.

Stærstu þjálfaraskiptin hljóta að vera þau að Ágúst Þór Jóhannsson einn sigursælasti þjálfari landsins hefur tekið við karlaliði Vals eftir að hafa stýrt kvennaliði félagsins í fleiri fleiri ár. Ágúst Þór gerði kvennalið Vals að Evrópubikarmeisturum í fyrra auk þess að gera liðið að deildar- og Íslandsmeisturum.

Þjálfarar í Olís-deild karla 2025/2026:
FH – Sigursteinn Arndal
Valur – Ágúst Þór Jóhannsson*
Afturelding: Stefán Árnason*
Fram – Einar Jónsson
Haukar: Gunnar Magnússon*
ÍBV: Erlingur Birgir Richardsson*
Stjarnan – Hrannar Guðmundsson
HK – Halldór Jóhann Sigfússon
KA: Andri Snær Stefánsson*
ÍR – Bjarni Fritzson
Þór: Daniel Birkelund*
Selfoss: Carlos Martin Santos

*Nýir þjálfarar

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top