Hvaða félög ættu að sækja Kára Kristján?
(Eyjólfur Garðarsson)

Kári Kristján Kristjánsson ((Eyjólfur Garðarsson)

Eins og fram hefur komið er Eyjamaðurinn knái Kári Kristján Kristjánsson samningslaus og því frjálst að ræða við önnur lið í deildinni. Handkastið hefur tekið saman nokkur lið sem gætu reynt að falast eftir þjónustu hans næsta vetur.

Fram: Íslands- og bikarmeistarar Fram hafa misst máttarstólpa í sumar. Reynir Þór hefur samið við Melsungen og Tryggvi Garðar heldur til Austurríkis. Fram gæti því hugnast að sækja Kára Kristján til þess að auka breiddina í hópnum og létta undir með Degi Fannari Möller og Erlendi Guðmundsyni þar sem mikið mæddi á þeim varnar- og sóknarlega á síðasta tímabili. Fram mun einnig taka þátt í Evrópudeildinni í vetur og þar bætast við 6 leikir fyrir áramót.

Haukar: Gæti Kári Kristján endurnýjað kynni sín við Ásvelli 20 árum síðan hann kom til þeirra síðast? Gunnar Magnússon nýráðinn þjálfari Hauka gæti viljað styrkja línumannstöðuna og fá reynslu inn í ungan og efnilegan leikmannahóp Hauka fyrir næsta tímabil. Jón Ómar Gíslason gekk vissulega til liðs Hauka í sumar en hann er reynslulítill línumaður og var einnig að gangast undir aðgerð á hné í sumar.

FH: Deildarmeistararnir hafa misst marga máttarstólpa í liðinu og Sigursteinn Arndal gæti horft til Kára Kristjáns til að leysa brotthvarf Ágústar Birgissonar sem tilkynnti í vor að hann væri hættur. Kára líður líka vel í hvítri treyju svo það er spurning hvort við sjáum hann í FH á næsta tímabili.

Valur: Eftir brotthvarf Úlfars Monsa til Norður Makedóníu gæti það orðið hlustskipti Andra Finnssonar að færa sig af línunni í vinstra hornið. Þar myndi opnast pláss fyrir endurkoma Kára Kristjáns til Vals en hann lék með þeim árið 2014.

Þór: Nýliðar Þórs þurfa á öllum þeim styrkingum sem bjóðast. Daniel Birkelund hefur ekki ennþá tilkynnt hver mun aðstoða hann, gæti Kári Kristján verið tilbúinn í ævintýri fyrir Norðan og mögulega starf sem aðstoðarþjálfari?

KA: Eftir langa þjálfaraleit var það heimamaðurinn Andri Snær Stefánsson sem tók við þjálfun KA fyrir næsta tímabil. Þeir hafa verið duglegir að semja við leikmenn síðan tilkynnt var um ráðningu hans en líkt og fleiri lið í deildinni vantar þeim reynslu í hópinn. Munum við sjá nágrannana fyrir Norðan berjast um krafta Kára Kristjáns fyrir næsta tímabil?

Afturelding: Kristján Ottó er nánast eini sóknarlínumaður þeirra þar sem Þorvaldur Tryggvason hefur verið að glíma við meiðsli og hefur nánast verið að spila á öðrum fætinum undanfarin tvö ár. Kári myndi því koma með mikla vigt inn í sóknarleik Aftureldingar.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top