Egill Magg spilar sennilega ekkert í vetur. (Sævar Jónsson
Vinstri skytta Stjörnunnar í Olís-deild karla, Egill Magnússon gerir ekki ráð fyrir að leika með liðinu á tímabilinu sem framundan er. Egill gekkst undir stóra aðgerð á hægri hendi fyrr í sumar og gert er ráð fyrir að endurhæfingin taki allt upp í ár. Þetta staðfesti Egill sjálfur, í samtali við Handkastið. Egill hefur verið að glíma við meiðsli undanfarin tímabil lék einungis 14 leiki með Stjörnunni á síðasta tímabili og skoraði 20 mörk fyrir þá í deild, bikar og úrslitakeppninni. ,,Ég er búinn að vera mjög slæmur í olnboganum í 18 mánuði svo kom loksins í ljós að ég væri með slitið liðband sem hafði tekið smá bút úr beininu með. Ég fór í aðgerð þar sem þurfti að taka sin úr framhandleggnum á mér og binda þetta saman og fjarlægja þessa tvo litlu beinbúta sem slitnuðu frá með og vildu ekki gróa aftur rétt við. Læknirinn kallaði þetta bara krossbandsaðgerð í olnboga og sagði að ég yrði frá í 9-12 mánuði," sagði Egill í samtali við Handkastið. Egill sem er 29 ára uppalinn í Garðabæ gekk til liðs við Stjörnuna frá FH fyrir tímabilið 2023/2024. Samningur hans við Stjörnuna rann út í sumar.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.