Einar Sverris liggur undir feldi
(Kristinn Steinn Traustason)

Einar Sverrisson ((Kristinn Steinn Traustason)

Selfyssingurinn, Einar Sverrisson segir það óljóst hvað taki við hjá honum eftir sumarið en Einar lék með deildarmeisturum FH eftir áramót á síðustu leiktíð eftir að hafa tekið sér pásu frá handknattleiksiðkun eftir tímabilið 2023/2024 með Selfyssingum er liðið féll úr Olís-deildinni.

Það kom mörgum á óvart þegar FH-ingar sömdu við Einar í janúar á þessu ári. FH-liðið var í miklum meiðslavandræðum og átti Einar að hjálpa liðinu í baráttunni sem framundan var.

,,Ég ætlaði mér ekki að byrja aftur en svo hringir Steini Arndal (þjálfari FH) í janúar og ég ákvað að taka 3-4 mánuði með þeim í FH. Það voru meiðslavandræði hjá þeim og honum vantaði varnarmann og auðvitað átti ég líka að hjálpa þeim eitthvað sóknarlega. Ég var síðan kannski ekkert alltof heppinn með meiðsli. Ég fæ beinmar í úlnlið eftir fyrsta leik á móti Stjörnunni og fæ nokkur hálfmeiðsli í kjölfarið sem verður þess valdandi að ég spila aðallega vörnina hjá FH," sagði Einar í samtali við Handkastið en hann tognaði í kviðvöðva og nára á tímabilinu.

,,Þetta kom alveg á óvart, sérstaklega hja mínum vinum í Selfoss. Ég vona bara að maður hafi ekki brotið öll hjörtu hér á Selfossi. Það var auðvitað einn og einn sem sagði manni að þetta væri vitleysa," sagði Einar sem fékk greinilega að heyra mikla gagnrýni enda kaus Einar að spila ekki með Selfossi í Grill66-deildinni og hjálpa uppeldisfélaginu að vinna sér sæti í Olís-deildinni á nýjan leik sem tókst þó, án Einars eftir að Selfoss vann Gróttu í umspilinu.

,,Ég ákvað að hugsa aðeins um sjálfan mig í eitt skipti og þarna var ákveðinn gluggi að reyna við titla, FH var á þessum tíma inn í öllum keppnum og náði deildarmeistaratitlinum og mig vantaði í safnið. Það var mjög gott að ná honum," sagði markahæsti og leikjahæsti leikmaður Selfoss frá upphafi.

Einar segist ekki vera búinn að ákveða hvort hann spili handbolta á næsta tímabili. Hann vilji ekki gefa það út að hann sé hættur en á sama tíma telur hann ólíklegt að hann haldi áfram.

,,Ég veit af áhuga bæði frá Selfoss og FH en það bara kemur í ljós hvernig þetta endar vil kannski ekki gefa það út að maður sé hættur og svo birtist maður aftur á parketinu. Það gæti alveg dottið inn einhver pæling hjá mer með haustinu að slá til en það er þá eins og ég segi að fara koma í ljós síðar," sagði Einar Sverrisson að lokum í samtali við Handkastið.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top