Georgískur landsliðsmaður í KA
(Heimasíða KA)

Giorgi Dikhaminjia (Heimasíða KA)

Georgíski landsliðsmaðurinn, Giorgi Dikhaminjia hefur gengið í raðir KA. Þetta tilkynnti félagið á heimasíðu sinni nú rétt í þessu.

Giorgi sem er 28 ára gamall er 188 cm á hæð og leikur sem hægri skytta en getur einnig leyst hægra hornið af, en Giorgi leikur í hægra horninu með georgíska landsliðinu. Hann kemur til liðs við KA frá Pólska liðinu KS Azoty-Pulawy en þar áður lék hann með HK Mesto Lovosice í Tékklandi.

Giorgi er landsliðsmaður Georgíu en hann skoraði meðal annars níu mörk gegn Íslandi er liðin mættust í Georgíu á nýliðnum vetri. Hann skoraði svo þrjú mörk í síðari leik liðanna sem fór fram á Íslandi.

,,Við erum afar spennt fyrir komu hans hingað norður en öll samskipti okkar við Giorgi og hans fólk hafa verið afar jákvæð og fagleg. Það verður afar spennandi að sjá til hans í gula og bláa búningnum og ljóst að hann mun styrkja okkar unga og efnilega lið sem verður að mestu byggt upp af KA strákum," segir í tilkynningunni frá KA.

Í samtali við heimasíðu KA sagðist Giorgi vera mjög spenntur fyrir komunni norður og tók undir að öll samskipti við KA hafi verið afar jákvæð og fagleg. Hann sé hrifinn af framtíðarsýn KA sem sé skýr og sannfærði hann fyrir því að þetta væri rétta skrefið á hans ferli. Hjá KA sjái hann fyrir sér frábært tækifæri á að bæta sig bæði innan sem utan vallar, á Íslandi sé rík handboltahefð og deildin sé afar sterk. Það er spennandi verkefni framundan sem KA sé með í bígerð og er hann staðráðinn í að gefa allt sitt til félagsins.

Giorgi þekkir ágætlega til Íslands því hann samdi við HK sumarið 2019 er HK voru nýliðar í Olís-deildinni. Giorgi spilaði þó aldrei leik fyrir HK í Olís-deildinni þar sem samningi við hann var rift áður en deildin hófst.

Giorgi er fimmti leikmaðurinn sem gengur í raðir KA í sumar. Áður hafði Leó Friðríksson gengið í raðir KA frá Þór, Daníel Matthíasson frá FH, Ingvar Heiðmann Birgisson tók skóna af hillunni og þá hafði KA samið við norska leikmanninn, Morten Boe Linder sem leikur einnig stöðu hægri hornamanns og skyttu.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top