AftureldingAfturelding fans ((Raggi Óla)
Oscar Lykke, ungur Dani sem lék með TMS Ringsted í dönsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð er genginn í raðir Aftureldingar í Olís-deild karla. Þetta staðfesti félagið á samfélagsmiðlum sínum rétt í þessu. Oscar Lykke á að fylla það skarð sem Blær Hinriksson skilur eftir sig en eins og Handkastið hefur fjallað um bendir allt til þess að Blær leiki erlendis á næsta tímabili. Í tilkynningunni frá Aftureldingu segir að Oscar geti bæði spilað sem vinstri skytta og miðja. ,,Oscar steig sín fyrstu skref í meistaraflokki með Ringsted í vetur og hefur annars verið öflugur leikmaður í sínum aldursflokki. Við gerum okkur grein fyrir að það er vinna framundan en við ætlum okkur að hjálpa honum að taka næstu skref á sínum ferli og komast enn lengra eftir nokkur ár hjá Aftureldingu enda erum við að hugsa til næstu ára.” Oscar sem verður tvítugur í ágúst er sagður vera 195 cm á hæð á heimasíðu evrópska handknattleikssambandsins, EHF. Hann er uppalinn hjá danska félaginu, TIK Taastrup en gekk í raðir TMS Ringsted 17 ára að aldri. Hann skrifaði undir tveggja ára samning við Ringsted síðasta sumar og lék sitt fyrsta tímabil í dönsku úrvalsdeildinni á nýafstöðnu tímabili. Þar fékk hann fá tækifæri en vonast eftir stóru og veigamiklu hlutverki í Aftureldingu.
,,Það er ánægjulegt að fá Oscar Lykke til liðs við okkur. Hann er ungur og efnilegur leikmaður sem vildi koma til Íslands og við erum spenntir fyrir því að fara að vinna með hann og hjálpa honum að verða betri leikmaður," sagði nýráðinn þjálfari Aftureldingar, Stefán Árnason og hélt áfram.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.