Birkir Fannar Bragason (J.L.Long)
Markvörðurinn, Birkir Fannar Bragason sem lék með deildarmeisturum FH á síðustu leiktíð segir í samtali við Handkastið að handboltaskórnir séu komnir upp í hillu. ,,Maður er ekki ungur lengur og að reka fyrirtæki ásamt öllu öðru. Þetta er góður tími til að segja stop," sagði Birkir Fannar sem hefur gefið það áður út að hann sé hættur. Birkir Fannar sem er uppalinn á Selfossi hefur komið víða við á ferlinum. Ferilinn hófst á Selfossi áður en hann fluttist til Noregs. Þar lék hann með Randesund, Kristiansund og síðan Haugesund. Eftir dvöl í Noregi kom hann aftur til Íslands og lék með Selfossi tímabilið 2015/2016 er liðið fór uppúr 1.deildinni í þá efstu. Sumarið eftir gekk hann hinsvegar í raðir FH. Eins og fyrr segir hefur hann ætlað að hætta oftar en einu sinni áður, því fyrir tímabilið 2021/2022 þá yfirgaf hann FH og taldi sig vera hættan. Í september árið 2021 samdi hann hinsvegar við Kórdrengi og lék með þeim tvö tímabil. Hann mætti svo óvænt aftur í Kaplakrikann fyrir þetta síðasta tímabil. ,,Ég taldi mig vera endanlegan hættur eftir ævintýrið með Kórdrengjum en byrjaði aftur fyrir síðasta tímabil. FH hringdi og og báðu um aðstoð þannig að ég hljóp til, en nú er þetta komið gott," sagði Birkir Fannar. Birkir Fannar varð deildarmeistari með FH 2017 og á síðasta tímabili 2025 og lék til úrslita á Íslandsmótinu 2017 og 2018 og hlaut silfurverðlaun. Hann varð einnig bikarmeistari með FH 2019. FH-ingar hafa fyllt skarð Birkis Fannars með ungum Selfyssingi, Jóni Þórarni sem gekk í raðir félagsins frá Selfossi í sumar.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.