Birkir Benediktsson (Raggi Óla)
Mosfellingurinn, Birkir Benediktsson er á heimalið eftir árs dvöl í Japan er hann lék í efstu deild þar í landi með Wakunaga. Handkastið greindi frá heimför hans á dögunum. Samkvæmt heimildum Handkastsins hefur Birkir Benediktsson verið í viðræðum við deildarmeistara FH síðustu daga. FH-ingar hafa verið í leit af örvhentri skyttu í allt sumar en Jóhannes Berg Andrason hægri skytta FH síðustu tímabil gekk í raðir danska félagsins, Tvis Holstebro í sumar. Birkir sagði í samtali við Handkastið fyrr í sumar að þrátt fyrir að þónokkur félög hér heima hafi haft samband við sig gerði hann ekki ráð fyrir því að leika handknattleik á næsta tímabili. ,,Ég er á heimleið en tek mér að öllum líkindum smá frí frá handbolta," sagði Birkir í samtali við Handkastið fyrr í sumar. Nú gæti það hinsvegar breyst. Handkastið hefur heimildir fyrir því að FH hefur reynt að fá bæði Kjartan Þór Júlíusson leikmann Fram og Ágúst Guðmundsson leikmann HK í sumar. Kjartan ákvað að framlengja við Fram og Ágúst er samningsbundinn HK sem voru ekki tilbúnir að selja leikmanninn. Þá hefur Einar Rafn Eiðsson einnig verið orðaður við FH en hann er að jafna sig eftir aðgerð og verður ekki leikfær fyrr en seint á þessu ári.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.