Framarar eru í leit að styrkingu. (Kristinn Steinn Traustason)
Íslands- og bikarmeistarar Fram í Olís-deild karla hafa orðið fyrir mikilli blóðtöku í sumar en þrír leikmenn liðsins frá síðustu leiktíð hafa farið í atvinnumennsku. Áður höfðu þeir Reynir Þór Stefánsson gengið í raðir Melsungen í Þýskalandi og Tryggvi Garðar Jónsson gengið í raðir Alpla Hard í Austurríki. Handkastið hafði samband við Einar Jónsson þjálfara Fram og spurði hann út í stöðuna á leikmannahópnum og hvort liðið myndi bæta við sig leikmanni eða leikmönnum áður en tímabilið færi af stað í Olís-deildinni, 3.september næstkomandi. ,,Það segir sig sjálft að við þurfum að bæta við okkur leikmönnum. Við erum að þreifa fyrir okkur og skoða hvað sé í boði," sagði Einar Jónsson sem viðurkenndi að leikmannamarkaðurinn hér heima væri ekki að bjóða upp á marga kosti og því væru Framarar farnir að leita að styrkingu utan landssteinana. ,,Við erum að skoða allt sem í er boði. Við þurfum að fylla í þau skörð sem þessir leikmenn skilja eftir sig, það er alveg ljóst. En hvort það takist verður síðan að koma í ljós en það skýrist vonandi allt á næstu dögum og vikum," sagði Einar Jónsson þjálfari Íslands- og bikarmeistara Fram í samtali við Handkastið. Fram er á leið í riðlakeppni Evrópudeildarinnar sem öll er leikin fyrir áramót, sex leikir talsins. Það verður því aukið álag á liði Fram fyrir áramót.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.