Spurning á Kaffi París sumarið 2010 sem Aron gleymir aldrei
(FH)

Aron Pálmarsson (FH)

Aron Pálmarsson fyrrum atvinnu- og landsliðsmaður lagði handboltaskóna á hilluna eftir síðasta tímabil, er hann lék með Veszprem í Ungverjalandi eftir að hafa byrjað tímabilið með FH í Olís-deildinni.

Aron var gestur strákana í hlaðvarpsþættinum Chess after dark á dögunum þar sem farið var víða í þættinum sem var tæplega þrír klukkutímar að lengd.

Þar fór umræðan út í fyrirmynd og áfengisdrykkju en hlaðvarpsþátturinn var þá að tengja umræðuna við kostaða auglýsingu. Aron var spurður að því hvort hann væri nokkuð í bjórnum enda íþróttamaður og var síðan einnig spurður að því hvort það væri ekki yndislegt að vera hættur því þá væri hann ekki lengur fyrirmynd.

,,Ég ætla ekki að segja að ég þoli ekki það orð, en að vera fyrirmynd útaf einhverju sem þu gerir. Ég skil ef þú ákveður að ætla vera fyrirmynd en ég leit aldrei á mig sem einhverja fyrirmynd. Þó svo að augljóslega sjálfkrafa er ég fyrirmynd og verð það og var alltaf að fara verða það."

Aron sagði að hann ætlaði ekki að fara lifa sínu lífi út frá því að vera fyrirmynd fyrir aðra.

,,Ég ætlaði ekki að fara lifa mínu lífi út frá því sem eitthvað annað fólk ákveður," sagði Aron og tekur dæmi: ,,Heyrðu, þú ert fyrirmynd þú verður að haga þér svona."

Hann segir að með aldrinum og reynslunni hafi hugsun hans breyst hvað þetta varðar.

,,Ég fann það fyrst að ég var aðeins að halla mig í þá átt að vera passa mig en síðan pældi ég í rauninni ekkert í því. Auðvitað eru viss atriði sem þú gerir kannski ekki."

Næst var hann þá spurður að því hvort hann væri nokkuð að henda mynd af sér í story með tíunda bjórinn á föstudagskvöldi?

,,Jújú, afhverju ekki? Þú getur alveg gert það," sagði Aron og hló og bætti við að hann ætti meira við um að hann væri ekki að fara mæta með bjór í viðtal eða þess háttar og bætti við:

,,Hvernig þú talar með krakka og allt svoleiðis. Þú ert meðvitaður um stöðu þína án þess að þurfa að pæla í því að þú sért svakaleg fyrirmynd. Ég hef alltaf reynt að láta það ekki stjórna mér."

Næst fer Aron og rifjar upp atvik sem hann segir að hafi farið rosalega í taugarnar á sér og hann gleymi aldrei.

,,Þetta var svolítill vendipunktur í þessum hugsunum hjá mér. Sumarið 2010, fyrsta sumarfríið mitt heima á Íslandi eftir fyrsta tímabilið mitt með Kiel. Þá var þetta svona eins og við vitum hvernig þetta er, þegar það kemur 15 gráður og upp í 20 og heiðskýrt og enginn vindur, þá fara allir út. Það eru allir á barnum, fá sér kaldann og það er gaman. Og þetta er einhver þriðjudagur og ég er í sumarfríi. Við förum á Kaffi París í lunch og það var ekkert planað. En ég hugsa með mér hvað mig langaði mikið í bjór. Við pöntum okkur bjór með matnum og ekkert mál. Síðan labbar einn maður að mér og segir "Mátt þú vera að gera þetta?"

,,Maður fékk þetta mikið þegar maður var yngri, þá fékk ég svona spurningar. En á þessum tímapunkti, ég gleymi þessu aldrei. Það sem mig langaði að segja: Ég er í handbolta 11 mánuði ársins og er að fá mér einn bjór í fríinu mínu. Á ég bara að vera heima hjá mér í koju og fá mér bjór þar? Ég man alltaf eftir þessu augnabliki," sagði Aron og þetta er honum greinilega mjög minnistætt.

,,Fólk var ekki að spyrja: Getur þú drukkið? Fólk var meira að segja: Mátt þú drekka? Og það var ekkert eðlilega mikið í taugarnar á mér," sagði Aron að lokum.

Handkastið mælir með því að fólk hlusti á þáttinn þar sem Aron fer um víðan völl.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top