Andri Rúnars falur fyrir rúmlega 14 milljónir
(Kristinn Steinn Traustason)

Andri Már Rúnarsson ((Kristinn Steinn Traustason)

Andri Már Rúnarsson er enn samningsbundinn þýska félaginu SC DHfK Leipzig þó allt bendi til þess að hann yfirgefið félagið í sumar að hans ósk. Mikið hefur verið rætt og ritað um mál Andra Más síðustu daga og vikur eftir að faðir hans, Rúnar Sigtryggsson var sagt upp störfum hjá félaginu sem þjálfari liðsins.

Rúnar var síðan í viðtali hjá Vísi í lok síðasta mánaðar þar sem hann sagði að sonur sinn, Andri Már Rúnarsson væri með ákvæði í samningi sínum sem gaf honum tækifæri til að yfirgefa Leipzig. Það reyndist svo ekki vera rétt þegar menn fóru að rýna í smáa letrið.

Það hefur þó ekki breytt þeirri löngun Andra Más að vilja yfirgefa félagið og nú bendir allt til þess að svo verði að Andri Már gangi í raðir þýska liðsins, Erlangen og hitti þar fyrir, fyrrum liðsfélaga sinn hjá Leipzig og landsliðsmanninn, Viggó Kristjánsson.

Þýski fréttamiðilinn, SportBild sagði frá því um helgina að Leipzig vilji fá 100.000 evrur, jafnvirði rúmlega 14 milljóna króna fyrir Andra Má fari hann frá félaginu í sumar, en hann á eitt ár eftir af samningi sínum.

Þar kemur ennfremur fram að HC Erlangen hafi sýnt áhuga á að styrkja lið sitt með Andra Má en kaupverðið standi aðeins í stjórnendum félagsins.

Andri Már á ár eftir af samningi sínu hjá Leipzig en vill gjarnan losna og róa á önnur mið eftir að föður hans, Rúnari Sigtryggssyni, var sagt upp störfum þjálfara um miðjan júni.

Fyrir síðustu helgi kom fram í þýskum fjölmiðlum að SC DHfK Leipzig hafi leitað sér aðstoðar lögmanna vegna málsins. Er málið kallað "Pabbaákvæðið" hjá Sport Bild.

Erlangen hefur mikinn áhuga á íslenska leikstjórnandanum og margt bendir til þess að samkomulag náist milli Leipzig og Erlangen. Framkvæmdastjóri Leipzig, Karsten Günther, sagði: ,,Samningsskilmálar og samningaviðræður eru trúnaðarmál. Þess vegna tjáum við okkur ekki opinberlega um þetta.“

Í vikunni verður Blær Hinriksson að öllum líkindum tilkynntur sem nýr leikmaður Leipzig en hann gengur undir læknisskoðun hjá félaginu í vikunni. Í þýskum miðlum er að talað um að hann taki við af landa sínum, Andra Má. Blær hefur þó ekki enn skrifað undir samning við Leipzig þó svo að aðrir miðlar hafi haldið því fram.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top