Daníel Gústafs verður maður margra hatta hjá Víking
(Víkingur)

Daníel Ísak Gústafsson - Aðalsteinn Eyjólfsson ((Víkingur)

Daníel Ísak Gústafsson, sonur hins gamalkunna landsliðsmanns, Gústafs Bjarnasonar, hefur verið ráðinn til Víkings og mun þar sinna nokkrum störfum og hlutverkum.

Daníel Ísak er fæddur 1996 og er uppalinn hjá Haukum þar sem hann byrjaði að þjálfa fyrir meira en áratug. Einnig hefur hann þjálfað hjá Gróttu og Stjörnunni.

Daníel mun vera þeim Aðalsteini Reyni Eyjólfssyni og Ragnari Hermannssyni til aðstoðar og fulltingis með þjálfun aðalliðs meistaraflokks karla í Grill 66 deildinni. Einnig mun Daníel þjálfa Víking 2 (áður Berserkir) en það lið mun leika í 2. deildinni.

Daníel mun líka þjálfa 4. flokk karla ásamt því að taka að sér nýtt starf hjá félaginu sem verkefnastjóri Barna- og unglingaráðs deildarinnar. Það er því óhætt að segja að það verði í nægu að snúast hjá Daníel í Safamýrinni í vetur og umsvifin töluverð.

Í tilkynningu frá Víking kemur fram að Aðalsteinn Reynir Eyjólfsson, yfirmaður handknattleiksmála og Daníel Ísak séu báðir mjög sáttir með að samkomulagið sé í höfn og þeir líti björtum augum á samstarfið, keppnistímabilið og vinnuna sem framundan er.

Síðuritari lagði hausinn aðeins í bleyti og reiknaðist þannig til og var nokkuð viss um að Víkingur sé eina félagið á Íslandi sem getur státað sig af því að vera með stöðugildi fyrir yfirmann handknattleiksmála, yfirþjálfara yngri flokka og loks verkefnastjóra Barna- og unglingaráðs. Vel að verki staðið hjá félaginu.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top