Nikola Radovanovic ((Þór Handbolti)
Eins og fram kom í gærdag sömdu Þórsarar við serbneska markmanninn Nikola Radovanovic. Þór eru nýliðar í Olís-deild karla eftir að hafa unnið Grill66-deildina á síðustu leiktíð. Við heyrðum í Daníel Birkelund nýráðinn þjálfara Þórs og spurðum hann út í nýja markvörð liðsins. ,,Ég er mjög ánægður með að hafa klárað að semja við Nikola. Það var gífurlega mikilvægt fyrir okkur að sækja markmann," sagði Birkelund en nú hafa Þórsarar fengið tvo markmenn í sumar en misst einn. Kristján Páll Steinsson sem varði mark Þórs síðustu ár er fluttur erlendis og leikur því ekki með liðinu í vetur. Ungur og efnilegur markvörður, Patrekur Guðni Þorbergsson gekk fyrr í sumar í raðir Þórs frá HK. ,,Allir þeir sem ég talaði við báru Nikola vel söguna og mér líst mjög vel á hann bæði sem leikmann og persónu. Hann hefur leikið á háu leveli og ég er mjög vongóður að hann eigi eftir að passa vel inn í hópinn," sagði Daniel Birkelund að lokum í samtali við Handkastið. Um helgina birtist lengra og ítarlegra viðtal við Norðmanninn, sem tók við Þór á dögunum og ætlar að stýra Þórsurum næstu árin.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.