Andri Már Rúnarsson (Kristinn Steinn Traustason)
Andri Már Rúnarsson var í morgun kynntur sem nýr leikmaður HC Erlangen. Var hann keyptur til félagsins frá Leipzig en félagaskiptin hafa legið fyrir síðustu daga og því var þetta orðið Andri segir það vera góða tilfinningu að vera búinn að ganga frá vistaskiptunum og hefur æfingar strax með liðinu í dag er liðið fer í hlaupapróf. ,,Ég er ánægður með þetta og klár í slaginn," sagði Andri Már í morgunsárið þegar Handkastið heyrði í honum. Hjá Erlangen hittir hann fyrrum liðsfélaga sinn hjá Leipzig og liðsfélaga í íslenska landsliðinu, Viggó Kristjánsson. Andri var orðaður við nokkur félög í sumar eftir að ljóst var að hann hefði óskað eftir því að fara frá Leipzig. ,,Það voru fleiri lið í myndinni en mér leist best á Erlangen þegar uppi var staðið," sagði Andri sem segir að hlutverk sitt hjá liðinu á næsta tímabili eigi eftir að koma í ljós. ,,Auðvitað langar mér að spila eins mikið og hægt er og hjálpa liðinu að bæta sig og gera góða hluti. Það er bara mitt núna að standa mig og sýna þjálfaranum hvað ég get, svo ákveður hann hlutverk mitt út frá því. Ég þarf bara að hugsa um mig, halda áfram að bæta mig meira og meira persónulega." En kom aldrei til greina hjá Andra að vera áfram hjá Leipzig eftir að föður hans, Rúnari Sigtryggssyni var sagt upp störfum? ,,Auðvitað var mikið pælt í hlutunum en snemma ákvað ég að ég myndi vilja fara." ,,Þetta er búið að vera mjög skrautlegt ferli og nokkur atriði hér og þar sem var mikið pælt í. Auðvitað er þetta búið að reyna á hausinn á sama tíma og maður var að reyna að hvíla hann aðeins. En í dag er ég bara ánægður með að allt sé komið á hreint núna og ég er klár í framhaldið," sagði Andri sem eyddi sumarfríinu mest megnis hér heima á Íslandi.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.