Hrannar Guðmundsson (Kristinn Steinn Traustason)
Karlalið Stjörnunnar er á leið í forkeppni Evrópudeildarinnar en dregið var í forkeppnina í fyrradag. Þar dróst Stjarnan gegn rúmenska stórliðinu Baia Mare sem hefur verið árlegur þátttakandi í Evrópukeppnum undanfarin ár. Sigurvegararinn úr einvíginu vinnur sér inn þátttökurétt í riðlakeppni Evrópudeildarinnar en þar verða Íslands- og bikarmeistarar Fram. Dregið verður í riðlakeppni Evrópudeildarinnar á föstudaginn. Hrannar Guðmundsson þjálfari Stjörnunnar segir að hann sem komið er renni hann og liðið blint í sjóinn í það verkefni sem framundan er. ,,Við erum fyrst og fremst spenntir fyrir þessu verkefni sem bíður okkar. Það er ekkert launungarmál að við hefðum bæði getað fengið erfiðari andstæðing en á sama tíma þægilegra ferðalag. Þetta er ekkert sem maður getur stjórnað sjálfur, svo við erum bara spenntir fyrir þessu," sagði Hrannar í samtali við Handkastið. Stjarnan leikur fyrri leikinn ytra síðustu helgina í ágúst. ,,Þetta lið hefur náð góðum árangri bæði heima fyrir og í Evrópubikarnum síðustu ár. Það er yfirleitt brjáluð stemning á heimaleikjum hjá félaginu og ég geri ekki ráð fyrir neinu öðru þegar við mætum til Rúmeníu. Það verður áhugavert fyrir okkur í þjálfarateyminu, strákana í liðinu og stjórninni að taka þátt í Evrópukeppni, fyrir lang flesta í liðinu í fyrsta skipti," sagði Hrannar sem segist aðeins vera byrjaður að skoða lið Baia Mare en viðurkennir að næstu vikur fari í að afla sér frekari upplýsingar. ,,Við vitum nú þegar að það er nýr þjálfari tekinn við liðinu sem þjálfaði einmitt Jóhannes Björgvin, leikmann okkar í Færeyjum. Þannig við erum strax komnir með smá tengsl sem við getum nýtt okkur. Það eru síðan einhverjar breytingar á liðinu eins og gengur og gerist. En ég held að ég geti sagt það með fullvissu að við erum að fara mæta hörkuliði," sagði Hrannar Guðmundsson þjálfari Stjörnunnar að lokum í samtali við Handkastið. Fyrri leikur liðanna verður leikinn helgina 30.-31.ágúst en heimaleikurinn fer fram í Heklu-höllinni helgina 6.-7.september.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.