Einar Jónsson (Eyjólfur Garðarsson)
Dregið var í riðla í Evrópudeild karla fyrr í dag í höfuðstöðvum EHF í Vín. Tvö íslensk lið voru í pottinum þegar dregið var. Íslands- og bikarmeistarar Fram hafa unnuð sér sæti í riðlakeppninni en Stjarnan þarf að komast í gegnum forkeppni Evrópudeildarinnar til að fá þátttökurétt í riðlakeppninni. Stjarnan mætir rúmenska liðinu Baia Mare í forkeppninni en leikið er heima og heiman og fer fyrri leikurinn fram í Rúmeníu, síðustu helgina í ágúst. Fram leikur í D-riðli en ekki er enn víst hverjir verða í riðlinum. Einungis er ljóst að Þorsteinn Leó Gunnarsson og félagar hans í Porto verða í riðlinum með Fram. Auk þess verða sigurvegarar úr einvígi Elverum og Torrelavega og einnig úr einvígi Gorenje Velenje og Kriens-Luzern. ,,Þetta er flottur riðill, mér líst vel á þetta. Það er gaman að fá Porto með Þorstein Leó. Ég geri ráð fyrir að nágrannar okkar í Mosó fjölmenni á þann leik líkt og þegar Porto mætti Val í fyrra," sagði Einar Jónsson þjálfari Fram þegar hann var spurður út í fyrstu viðbrögð eftir dráttinn í morgun. ,,Vonandi fáum við Elverum, það er alltaf gaman að meta sig við lið frá Norðurlöndunum. Við ætlum okkur áfram úr þessum riðli og ég er bjartsýnn að það verði góð mæting á okkar heimaleiki í Lambhagahöllinni," sagði Einar að lokum.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.