Aron Pálmarsson (MARIUS BECKER / dpa Picture-Alliance via AFP)
Kveðjuleikur Arons Pálmarssonar fer fram í Kaplakrika, föstudagskvöldið 29.ágúst þegar ungverska stórliðið, ONE Veszprem mætir til Íslands og leikur gegn FH. Aron Pálmarsson gerir ráð fyrir að leika með báðum liðum í leiknum en FH-ingar ætlar að blása til fjölskylduskemmtunar í kringum leikinn. Miðasala á leikinn er hafin og fer fram í Stubb. Aron Pálmarsson og Ágúst Bjarni Garðarsson formaður handknattleiksdeildar FH voru í viðtali í K100 í gær þar sem rætt var um komandi leik. Þar segir Aron frá því að hugmyndin hafi byrjað hjá þjálfara Veszprem, Xavier Pascual um leið og Aron tilkynnti honum og félaginu að hann hyggist leggja skóna á hilluna í sumar. ,,Þegar ég hef tekið þá ákvörðun að hætta og tjái þeim að það sé loka ákvörðun mín þá segir hann við mig á fundinum með forseta félagsins og fleiri stjórnendum: "Ég veit hvernig þú ert, þú vilt ekkert gera mikið úr þessu" þó svo að fólk haldi annað, en hann tók það ekki í mál. "Þú færð kveðjuleik og ég set það inn í undirbúningstímabilið að við ferðumst til Íslands í 4-5 daga, æfum og endum síðan á kveðjuleik fyrir þig," sagði Aron er hann lýsti samtali sínu við Pascual. Ágúst Bjarni segir að þetta sé frábært fyrir FH að fá að taka þátt í þessu. Aron hafi gefið félaginu ótrúlega mikið og þarna getið félagið stigið inn og tekið þátt í þessum viðburði. ,,Þetta er risa stórt. Þetta er eitt stærsta handboltafélag í heimi, það eru stórar stjörnur þarna innanborðs. Ég held að handboltafólk og íþróttaáhugafólk eigi að íhuga það vel að koma í Kaplakrika þennan dag og taka þátt í þessum viðburði," sagði Ágúst Bjarni sem tekur það fram að þetta sé ekki einungis handboltaboltaleikur. ,,Þetta er líka skemmtidagskrá. Þetta verður alvöru viðburður. Þetta verður gleði og gaman og ég held að fólk ætti að flykkjast í Kaplakrika þennan dag," sagði Ágúst Bjarni sem segir að dagskráin sé að taka á sig mynd. ,,Á næstu dögum kemur heildarmynd á dagskrána. Við erum núna að klára að semja við okkar bakhjarla sem ætla að vera með okkur í þessu. Það er gaman að segja frá því að Arion banki er að stíga kröftuglega inn í þetta með okkur og á næstu dögum getum við tilkynnt aðra aðila sem ætla að taka þátt í þessu með okkur." ,,Fyrst og fremst er þetta viðburðurinn hans Arons - þetta er kveðjuleikurinn hans. Það er geggjað fyrir okkur að taka þátt í þessu og búa til alvöru stemningu í Kaplakrika." Aron segist ótrúlega þakklátur að fá kveðjuleik, heima á Íslandi í Kaplakrika. ,,Ég er ótrúlega þakklátur, Pascual þegar talaði svona til mín. Hann sagði að við gætum komið og haldið kveðjuleik hér á Íslandi, það fékk smá á mann. Fyrst hugsaði maður, er ekki nóg að fá bara blómvönd og taka eina mynd? En svo má ekki gleyma því að þú færð ekki flottari eða betri félag á Íslandi, heldur en FH hvað umgjörð varðar, bæði fyrir leiki og eftir leiki og meðan á leik stendur," sagði Aron sem hélt áfram: ,,Þegar ég heyri í FH varðandi þessa hugmynd og þetta fer af stað og hvernig þetta er búið að gerast þá fattar maður að FH er á pari við stærstu liðin hvað þetta varðar og ekki með sama fjármagn og liðin úti. Ég er hæst ánægður með þetta," sagði Aron sem hvetur alla til að tryggja sér miða á leikinn sem fyrst. ,,Ég er að fá fyrirspurnir frá Danmörku, Þýskalandi og Ungverjalandi - hvar er hægt að kaupa miða. Ég mæli alveg með því að fólk kaupi sér miða sem fyrst." En hvernig verður þessu háttað - með hverjum mun Aron spila í leiknum? ,,Það er ekki orðið staðfest en ég hugsa að ég endi á að spila með báðum liðum. Ég vel síðan það lið sem er yfir undir lokin og fer í treyjuna hjá þeim," sagði Aron léttur í bragði í lokin.Eitt stærsta handboltafélag í heimi
Fyrst og fremst viðburðurinn hans Arons
Fengið fyrirspurnir erlendis frá
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.