Guðjón Valur Sigurðsson ((Tom Weller / dpa Picture-Alliance via AFP)
Framtíð Filip Jicha þjálfara Kiel er mikið á milli tannanna hjá handboltaunnendum þessa dagana en gengi liðsins hefur ekki verið eins og stjórnarmenn og stuðningsmenn Kiel ætlast til síðustu tvö ár. Jicha tók við liði Kiel sumarið 2019 og er því á leið inn í sitt sjöunda tímabil með liðið. Filip Jicha gerði Kiel að Þýskalandsmeisturum á sínu fyrsta ári auk þess að hafa unnið Meistaradeildina sama ár. Kiel vann deildina heima fyrir einnig ári síðar og tímabilið 2022/2023. Nú hafa hinsvegar tvö slæm tímabil komið hjá félaginu þar sem liðið hefur ekki náð inn í Meistaradeildina. Sá orðrómur um að Jicha hætti með Kiel á næsta ári verður því alltaf háværari og háværari. Nafn Guðjóns Vals Sigurðarssonar er nefnt til sögunnar sem líklegur kandídat til að taka við liðinu en Guðjón lék með Kiel árin 2012-2014. Hann er í sínu fyrsta þjálfarastarfi á ferlinum en hann hefur stýrt liði Gummersbach frá árinu 2020. Guðjón Valur framlengdi samningi sínum við Gummersbach síðasta sumar og er samningur hans við félagið til ársins 2027. Samkvæmt heimildum Handkastsins var Guðjón Valur undir smásjá Kiel á síðasta ári áður en hann framlengdi samningi sínum við Gummersbach. Var hann sagður hafa verið stærsta skotmark Kiel eftir vonbrigðartímabil félagsins í hittífyrra. Þá herma heimildir Handkastsins að hann hafi einnig neitað franska stórliðinu Paris Saint Germain. Guðjón Valur endaði leikmannaferil sinn með PSG tímabilið 2019/2020. Nú er sá orðrómur farinn aftur á kreik að Guðjón Valur gæti tekið við Kiel næsta sumar. Hann er þó ekki eini þjálfarinn sem er orðaður við Kiel, því nafn Talant Mushanbetovich Dujshebaev þjálfari Kielce í Póllandi hefur einnig verið nefnt til sögunnar. Það verður fróðlegt að fylgjast með gangi mála og þá sérstaklega gengi Filip Jicha með Kiel á næsta tímabili.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.