Daniel Birkelund (Þór Handbolti)
Við tókum hús á Daniel Birkelund nýráðnum þjálfara Þórs á Akureyri og fengum að heyra hverjar væntingar hans til vetrarins væru, staðan á leikmannahóp og fleira. Þór eru nýliðar í Olís-deildinni eftir að hafa unnið Grill66-deildina á síðustu leiktíð. Hvernig kemur það til að jafn reynslu mikill þjálfari og Daniel Birkelund kemur til Íslands og var aðdragandinn langur? ,,Þar samningur minn í Danmörku kláraðist í vor fór ég að líta í kringum mig eftir nýjum tækifærum. Eina sem ég vissi var að ég vildi halda áfram að þjálfa erlendis og finna ný ævintýri, upplifa aðra menningu og kynnast fólki og gera eitthvað aðeins út fyrir þægindaramman," sagði Birkelund en hann þjálfaði síðast danska félagið Lemvig í dönsku B-deildinni. ,,Þegar umboðsmaðurinn minn sagði mér frá áhuga Þórs þá tikkaði þetta í öll boxin hér að ofan svo auðvitað vildi ég taka samtalið. Ég fékk strax mjög góða tilfinningu fyrir verkefninu og metnaðnum sem var hjá stjórnarmönnum Þórs og þeirra gildi pössuðu vel við mín eigin. Ég ræddi við félaga sem þekktu vel til Íslands og eftir stutta heimsókn norður í maí þá var allt í kringum klúbbinn, bæjarfélagið og menninguna sem heillaði mig þannig þetta var í raun bara formsatirði að klára litlu hlutina í samningnum," sagði Birkelund sem viðurkennir að hann hafi ekki kynnt sér Olís-deildina mikið en hann segist auðvitað þekkja til íslensks handbolta og fyrir hvað hann stendur. ,,Augljóslega hef ég fylgst með íslenska landsliðinu og öllum þeim frábæru leikmönnum og þjálfurum sem koma héðan en Olís-deildina hafði ég ekki kynnt mér vel. En eftir tveggja mánaða vinnu þá tel ég að deildin sé klárlega vanmetin af löndunum í kringum okkur, sérstaklega Danmörku, Svíþjóð og Noregi." Daniel vonast til að geta boðið upp á kraftmikinn handbolta og taktískan varnarleik. Hann leggi mikla áherslu á góðan varnarleik sem getur skilað sér í hraðaupphlaupum og hraðri seinni bylgju. ,,Ég vill einnig sjá skipulagðan sóknarleik en samt gefa leikmönnum frelsi til að skapa eitthvað upp á eigin spýtur. Til að taka þetta saman þá vill ég sjá baráttu og skynsemi framar öllu," sagði Daniel sem segir það of snemmt að segja til um markmið Þórs á tímabilinu ,,Það er of snemmt að segja að svo stöddu. Auðvelda svarið er að segja að liðið eigi að stabíla sig sem lið í efstu deild á ný. En nánari markmið er eitthvað sem við munum taka með leikmönnum og stjórninni." Hann segist vera mjög spenntur fyrir því að kynnast og taka þátt í íslenskri handboltamenningu. ,,Ég er augljóslega ekki einn á báti þegar kemur að því að vera heillaður af því hvað þessi fámenna einangraða þjóð í Norður-Atlantshafi hefur afrekað og það skal tekið fram að þetta er sagt með mikilli ást og virðingu. Ég býst við miklli ástríðu og krafti frá mínu liði sem og öðrum í deildinni ásamt hugarfari sem er ólíkt því sem þekkist í nágrannalöndunum okkar." Þórsarar hafa lítið sem ekkert styrkt liðið frá síðustu leiktíð. Daniel gerir ráð fyrir að bæta við leikmönnum í hópinn. ,,Ég er mjög ánægður með leikmannahópinn. Við héldum kjarnanum frá liðinu í fyrra sem ég tel vera mjög mikilvægt. Ég er samt sem áður að leitast eftir að styrkja hópinn með 2-3 leikmönnum. Við munum klárlega leita af markverði en einnig erum við að hópa til styrkinga sem gætu aukið breiddina fyrir utan sóknarlega og spilað í miðju varnarinnar." ,,Það er ólíklegt að ég muni leita til Noregs eftir leikmönnum þar sem þeir eru oftast búnir að festa sig og semja við lið með góðum fyrirvara. Ég þekki auðvitað mjög vel til í Noregi, þekki marga þjálfara og leikmenn svo við gætum horft þangað fyrir næsta tímabil en fyrir þetta tímabil munum við leita á aðra markaði," sagði Daniel sem er mættur til landsins og byrjaður að þjálfa Þórs liðið.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.