Starri Friðriksson (Sævar Jónsson)
Hægri hornamaður Stjörnunnar, Starri Friðriksson gekkst undir aðgerð á hægri öxl í byrjun árs eftir að hafa dottið úr axlarlið í æfingaleik með Stjörnunni í janúar. Þetta var önnur axlaraðgerð Starra á hægri öxlinni. Starri lék ekkert með Stjörnunni eftir áramót í Olís-deildinni á síðasta tímabili en í samtali við Handkastið segist Starri ekki vera viss hvenær búast megi við honum aftur á vellinum. ,,Ég er ekki alveg viss hvenær ég get byrjað að spila á nýjan leik, það verður svolítið að koma í ljós þegar við byrjum að æfa aftur eftir sumarfrí. Eins og staðan er í dag þá geri ráð fyrir því að byrja spila annað hvort í ágúst, september eða október," sagði Starri sem greinilega setur markið á það að byrja spila með Stjörnunni fyrir áramót. Starri sem hefur leikið allan sinn feril í Garðabænum hafði leikið vel með Stjörnunni fyrir áramót á síðustu leiktíð í þeim 13 leikjum sem hann spilaði. Skoraði hann 52 mörk í þeim leikjum, eða fjögur mörk að meðaltali í leik. Stjarnan fékk til sín hægri hornamanninn, Gauta Gunnarsson frá ÍBV í sumar en búast má við mikilli samkeppni þeirra á milli þegar Starri snýr aftur á völlinn.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.