Vonast eftir skemmtilegu ævintýri í Norður-Makedóníu
(Baldur Þorgilsson)

Úlfar Páll Monsi ((Baldur Þorgilsson)

Úlfar Páll Monsi Þórðarson, 25 ára vinstri hornamaður Vals undanfarin tímabil hefur samið við Norður-Makedóníska stórliðið, Alkaloid sem er þjálfað af goðsögninni Kiril Lazarov. Handkastið greindi frá þessu fyrr í sumar og nú er Monsi mættur til Norður-Makedóníu og byrjaður að æfa með liðinu.

Handkastið heyrði í nýjasta leikmanni Alkaloid.

,,Það hefur alltaf verið markmiðið hjá mér að komast út og verða atvinnumaður. Mig dreymir að ná enn lengra og komast í Bundesliguna og síðan horfir maður alltaf í það að reyna komast í íslenska landsliðið," sagði Monsi sem segist vera mjög spenntur fyrir þessu nýja verkefni á ferlinum.

,,Ég held að þetta gæti verið mjög gott tækifæri fyrir mig sem leikmann að ná að bæta mig og verða besta útgáfan af sjálfum mér. Með þessu þá næ ég að hugsa einungis um handbolta allan sólarhringinn og skrokkinn á mér," sagði Monsi en hvernig kom þetta til?

Alkaloid vill spila í Meistaradeildinni

,,Þetta kom til að Alkaloid vantaði markaskorara og Kiril Lazarov þjálfari liðsins sá leiki hjá mér og leist vel á mig í það hlutverk. Ég frétti að þeir höfðu spurt um mig í desember í fyrra en aldrei neitt formlegt tilboð en síðan heyrðu þeir í mér í seinasta mánuði og hófust viðræður þá," segir Monsi sem segir að gerðar séu miklar kröfur til hans af Lazarov og þeim sem stjórna hjá félaginu.

,,Það er 100% undir mér komið að standa undir því. Þetta verður vonandi skemmtilegt ævintýri. Það eru fullt af ungum og efnilegum leikmönnum í bland við eldri og reyndari leikmenn í liðinu. Þetta lið vill spila hraðan bolta svo það er ekkert nýtt fyrir mér komandi úr Valsskólanum. Það eru háleit markmið hjá þessu liði og vilja þeir ná í Meistaradeildarsæti," sagði Monsi sem viðurkennir að vita lítið um deildina.

,,Ég veit ekkert rosa mikið um hana. Nema að það verða mikið af hörku leikjum og þá sérstaklega a móti Vardar og Eurofam Pelister," sagði Monsi að lokum í samtali við Handkastið.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top