Böðvar Páll tekur sér pásu frá handboltanum
(Baldur Þorgilsson)

Böðvar Páll Ásgeirsson (Baldur Þorgilsson)

Böðvar Páll Ásgeirsson kom til baka í lið Aftureldingar á miðju síðasta tímabili og lék með liðinu restina af tímabilinu. Samningur Böðvars var hinsvegar einungis út tímabilið og er því runninn út.

Böðvar sem varð 31 árs fyrr í sumar lék 13 leiki með Aftureldingu tímabilið 2023/2024 en hafði lagt skóna óformlega á hilluna. Það var síðan eftir áramót á þessu ári sem Böðvar mætti til baka til að hjálpa sínu uppeldisfélagi, Aftureldingu í Olís-deildinni.

Afturelding féll úr leik í undanúrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í oddaleik gegn Val. Hvort það hafi verið hans síðasti leikur á ferlinum verður tíminn að leiða í ljós. Stefán Árnason nýráðinn þjálfari Aftureldingar sagði það vera í skoðun varðandi framtíð Böðvars hjá liðinu.

Handkastið hafði samband við Böðvar Pál og spurði hann út í stöðu sína hjá Aftureldingu. Þar sagði hann stöðuna flókna.

,,Ég spila ekki handbolta í vetur til að byrja með að minnsta kosti. Ég átti samtal við Aftureldingarmenn um að vera áfram eftir að hafa tekið fram skóna í vor. En þar sem ég er að byrja á fjórða ári í læknisfræði í haust þar sem álagið er með mesta móti og með fjölskyldu var þetta skynsamlegasta niðurstaðan. Ég ætla að reyna að vera í kringum Aftureldingarliðið á tímabilinu og það getur samt vel verið að skórnir verði teknir aftur fram í vetur eða einhvern tímann seinna ef mér finnst það ganga upp," sagði Böðvar Páll sem greinilega er ekki tilbúinn að segja alfarið skilið við íþróttina en setur námið og fjölskylduna í fyrsta sæti í haus.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top