Taktíktaflan komin í hilluna og orðinn umboðsmaður
(Kristinn Steinn Traustason)

Halldór Stefán Haraldsson (Kristinn Steinn Traustason)

Halldór Stefán Haraldsson var sagt upp störfum sem þjálfari KA eftir síðasta tímabil. Halldór hafði þjálfað KA í tvö tímabil en þar áður hafði hann þjálfað í Noregi í sjö ár. Hann hefur nú sett þjálfaramöppuna til hliðar og einbeitt sér að öðrum verkefnum tengd handboltanum.

Halldór Stefán hefur nefnilega stofnað sína eigin umboðsskrifstofu "HS Management", hugmynd sem hann segist hafa verið með í hausnum í nokkur ár. ,,Ég einhvernvegin hef aldrei fundið rétta tímann til þess að fara af stað með þetta en svo kom rétti tíminn í vor og ég ákvað að slá til," sagði Halldór Stefán aðspurður út í tímapunktinn og ástæðuna. En hvað er HS Management?

,,Þetta er í grunninn umboðsmennska til að byrja með en svo er ég með ákveðnar hugmyndir sem mig langar að þróa þetta út í á næstu árum."

,,Mig langar að veita þeim leikmönnum sem ég vinn með góða þjónustu og fylgja þeim eftir á vellinum eins og hægt er. En síðan eru auðvitað leikmenn að leita eftir mismunandi þjónustu þannig ég flokka leikmenn aðeins niður eftir því hverju þeir eru að leita af, sumir vilja bara finna næsta samning á meðan aðrir vilja fá meiri aðstoð þannig það er aðeins mismunandi hvað ég er að bjóða uppá," sagði Halldór Stefán sem segir að verkefnið hafi farið vel af stað. Hann sé strax kominn með góðan hóp leikmanna til sín.

,,Ég ætla að passa mig sérstaklega á því að taka ekki að mér of marga en núna eru þetta leikmenn frá níu þjóðernum bæði karla og kvenna og allt frá úrvalsdeildarleikmönnum til yngri leikmanna sem eru að spila í neðri deildum."

Með sterkar tengingar kvennamegin

Arnar Freyr Theodórsson hefur verið í umboðsmaður í mörg ár og verið með flesta af bestu leikmönnum Íslands sem og erlenda leikmenn á hæsta stigi leiksins. Halldór segir að það sé grundvöllur fyrir fleiri umboðsmenn hér á landi.

,,Addi Tedda hefur auðvitað verið frábær hérna á Íslandi og ég hef ekki heyrt neitt annað en frábærar sögur af honum þannig ég tel kannski ekki að þetta hafi vantað eitthvað sérstaklega á Íslandi. En ég er auðvitað með mjög sterkar tengingar kvennameginn og við erum með erlenda aðila sem eru að vinna með okkar íslensku leikmönnum bæði karla og kvennameginn," sagði Halldór sem segist enn sem komið er hinsvegar vera með töluvert fleiri erlenda leikmenn en íslenska hjá sér.

,,Ég myndi segja að svona 80% af þeim leikmönnum sem ég er með á mínum lista séu erlendir leikmenn. Ég er með margar norskar stelpur sem eru að spila í úrvalsdeildinni þar, en annars er þetta svona skemmtileg blanda sem ýtir manni út í það að fylgjast með mörgum deildum bæði karla og kvennamegin."

Úr norsku C-deildinni til Þýskalands

Halldór segist vera nota sumarið í sumar til þess að undibúa næsta sumar, ná til sín leikmönnum sem hann telur að eigi eftir að standa sig vel í vetur og eiga þá mögulega eftir að færa sig um set næsta sumar.

,,Eins er ég að reyna að komast í samstarf með leikmönnum sem ég hef trú á á næstu árum."

,,Annars hef ég einnig verið að reyna að markaðssetja mig á þann háttinn að ég sé mjög aðgengilegur og þá þannig að þú þarft ekkert endilega að vera svo ótrúlega góð eða góður að þú sért að fara í þýsku Bundesligunna, og þá í staðinn fyrir að bíða eftir því að einhver umboðsmaður hafi samband við þig þá getur þú haft samband við mig og við getum skoðað saman hvað getur verið í boði."

,,Ég var til dæmis að hjálpa norskri stelpu sem var að spila í C-deild í Noregi til Þýskalands í aðra deildina þar. Þannig verkefnin eru alsskonar og ég held að það séu ótrúlega margir leikmenn sem að langar til að prófa eitthvað nýtt en vita ekki alveg hvernig þeir eiga að snúa sér. Ég get þá kannski opnað fleiri leiðir. Ég tel að það eigi við líka hérna á Íslandi, það er fullt af leikmönnum sem að langar að sjá hvað er í boði en kunna ekki alveg við það hringja beint í þjálfarana sjálfir, og þá get ég hjálpað til með það."

Halldór segist vera spenntur fyrir því að leyfa þessu verkefni að vaxa og dafna.

,,Ég er með stórar hugmyndir og langar að bjóða uppá mun meiri þjónustu en flestir eru að bjóða uppá en það mun taka tíma að byggja þetta upp og ég ætla að byggja þetta upp vel og vandlega," sagði Halldór Stefán sem hvetur íslenska leikmenn sem eru áhugasamir að hafa samband við sig.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top