Viktor Lekve (KÍF
Íslenski handknattleiksþjálfarinn, Viktor Lekve var kynntur sem nýr þjálfari færeyska karlaliðs KÍF í síðasta mánuði. Viktor hefur undanfarin ár þjálfað hjá Fjölni og nú síðast hjá KA á Akureyri. Handkastið hafði samband við Viktor á dögunum og spurði hann aðeins út í það verkefni sem hann er kominn í og aðdragandann. ,,Það heyrði í mér umboðsmaður frá HS Management og spurði hvort ég hefði áhuga á að skoða þetta starf. Eftir að hafa að hugsað það vel og fundað með liðinu leyst mér bara gríðarlega vel á þetta verkefni og metnaðinn í félaginu," sagði Viktor sem segir að væntingarnar fyrir næsta tímabil sé að gera betur en í fyrra. KÍF endaði í 5.sæti í sjö liða efstu deild í Færeyjum. ,,Liðið hefur endað um miðja deild síðustu tvö tímabil og er stefnan á næstu árum að gera atlögu að toppliðunum. Ég er gríðarlega spenntur fyrir þessu og hlakka mikið til að byrja. Þetta er ungur og efnilegur leikmannahópur í bland við nokkra reynslu meiri leikmenn. Það verður spennandi og krefjandi að ná því allra besta út úr öllum," sagði Viktor sem fylgdist vel með færeyska boltanum á síðustu leiktíð. ,,Ég þekki deildina aðeins betur en fyrir ári síðan. Undanfarna mánuði hef ég verið að skoða leikmenn og horfa á leiki þegar við í KA vorum i leikmannaleit. Þannig maður þekkir helstu leikmenn og hvernig mörg félög spila." Viktor segist spenntur fyrir því að reyna fá íslenska leikmenn til sín. ,,Við stefnum á að styrkja liðið fyrir komandi tímabil. Það væri lang best að fá íslenska leikmenn þar sem ég þekki þá töluvert betur en leikmenn frá öðrum löndum," sagði Viktor sem bætti við. ,,Ef einhver íslenskur leikmaður er til í ævintýri er um að gera að heyra bara í mér og sjá hvort við náum ekki saman," sagði Viktor að lokum í samtali við Handkastið.Hvetur íslenska leikmenn að heyra í sér
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.